Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 16:11:45 (955)

2001-10-31 16:11:45# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem segja má að hafi verið með hefðbundnu sniði. Hún skilar kannski ekki miklu en ég met mikils þann mikla áhuga sem hv. þm. sýna málefnum landsbyggðarinnar.

Ég vil að það komi fram, vegna þess að stundum finnst mér að það megi skilja orð hv. þm. þannig að einungis hér á Íslandi eigi menn við þessa erfiðleika að stríða, að svo er alls ekki. Í gær var t.d. haldin ráðstefna hér á landi um byggðamál. Hún var mjög vel heppnuð. Þar tóku þátt m.a. fulltrúar frá OECD, ESB, frá Skotlandi og Noregi og fleiri mætti nefna. Við erum því að fjalla um vandamál sem eru þekkt í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þar er ýmsum aðferðum beitt til að reyna að bregðast við byggðaþróuninni. Við ætlum okkur, ekki síst í tengslum við þá byggðaáætlun sem nú er í gangi eða er í undirbúningi, að nýta okkur það sem öðrum þjóðum hefur gefist vel.

Í máli hv. málshefjanda kom fram ýmislegt sem hefur svo sem heyrst áður, eins og þetta með einkavæðingarmálin. Gefið var í skyn að það væri fyrst og fremst afleiðing einkavæðingar að ástandið er eins og raun ber vitni á landsbyggðinni. Það svo sem kemur ekki á óvart því að flokkur hv. þm. vill engu breyta, hið nýja hreyfiafl vill engu breyta.

Það að selja Símann skapar okkur möguleika til að bæta mjög upplýsingahraðbrautina og aðgengi almennings, bæði að ISDN- og ADSL-þjónustu. Það eru uppi áform hjá ríkisstjórninni um að þetta gerist mjög hratt og ég held að það skipti verulega miklu máli.

Menn geta reynt að halda því fram að engin stefna sé í byggðamálum en það er þó Alþingi sem mótar stefnuna. Nú er í gangi byggðaáætlun sem fellur úr gildi um áramót og það er unnið að nýrri byggðaáætlun sem lögð verður fram á næstu mánuðum.