Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:12:52 (970)

2001-11-01 11:12:52# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa ræðu. Hv. þm. gerði ekki einu sinni tilraun til þess að rökstyðja þá niðurstöðu sína að Náttúruverndarráð væru öfgasamtök. (Gripið fram í.) Það eina sem hann nefndi í fyrri ræðu sinni var Eyjabakkamálið. Og hvað var þar? Það var gerð krafa um að það færi í umhverfismat. Voru þar öfgakröfur á ferðinni? Ég spyr.

Ég spyr. Mér finnst hv. þm. setja niður a.m.k. í mínum augum að hafa ekki getað komið hér og rökstutt mál sitt betur. Ég skora á hann að gera það.

Ég held að fjármunir úr ráðuneytinu geti hugsanlega verið notaðir til þess að koma þeim skilaboðum til ýmissa samtaka að menn skuli nú halda sig á mottunni ef þeir ætla að fá aur. Og ef þeir ætla að fá mikla peninga þá verði þeir að vera leiðitamir eða a.m.k. ekki vera með uppsteyt. Það eru þau skilaboð sem mér fannst hæstv. ráðherra vera að senda hér áðan.