Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:39:07 (1002)

2001-11-01 12:39:07# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:39]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef oft orðið var við það hjá þingmönnum Vinstri grænna að þeir eru að gefa öðrum þingmönnum eða málflutningi þeirra einkunnir. Hv. 5. þm. Austurl., Þuríður Backman, komst að orði eitthvað á þá leið að sér fyndist forsendur framsóknarmanna geðslegri en forsendur sjálfstæðismanna. Þetta er svona huglægt orð sem menn nota þegar þeir af einhverjum ástæðum treysta sér ekki, gæti maður haldið, til skoðanaskipta á eðlilegum grundvelli.

Ég kannast heldur ekki við að ég hafi haldið því fram að leggja eigi eitt eða annað niður ef einstökum ráðherra hugnast ekki skoðanir einhverrar stofnunar eða einhvers ráðs. Það hef ég ekki sagt og það hefur aldrei verið mín hugsun. Það sem ég hef sagt er að ef Náttúruverndarráð á að vera til ráðuneytis hlýtur það að eiga trúnað og vilja sýna trúnað. Ef leita á eftir skoðunum og áliti Náttúruverndarráðs, þá á það að standa í lögunum. Þá á að gera það þannig og hafa lögin í samræmi við reynsluna og í samræmi við það sem menn vilja, en ekki að skrifa í lög hluti eða orð sem menn vilja ekki standa við.

Í annan stað man ég ekki eftir því að ég hafi sagt að Náttúruverndarráð væri öfgasamtök. Ég kannast ekki við það. Þetta er enn eitt orðið sem er búið til til að komast hjá umræðu. Það sem ég sagði var að ég vildi breikka umræðugrundvöllinn um náttúruverndarmál, umhverfismál og sjálfbæra þróun. Þess vegna fagna ég frv. Ég vil að opinberir fjármunir nýtist betur og ég vil styðja frjáls félagasamtök á þessu sviði.