Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:49:56 (1008)

2001-11-01 12:49:56# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mig langar að bregðast við orðum hv. þm. Þuríðar Backman, 5. þm. Austurl. Henni og öðrum vinstri grænum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu hefur verið það mjög ofarlega í huga að nefna öfgasamtök í nánast öllum ræðum sínum út og suður. Allt í einu hafa öll samtök sem starfa að náttúruvernd nánast orðið öfgasamtök þegar þau tala um þetta mál.

Það sem ég sagði um öfga í þessari umræðu í upphafi máls míns var að ýmsar öfgafullar skoðanir hefðu komið fram í Náttúruverndarráði og truflað það starf sem Náttúruverndarráð á að sinna sem ráðgefandi aðili fyrir hið opinbera, fyrir stjórnvöld. Ég sagði að það væri ástæðan fyrir því að breyta þyrfti þessu fyrirkomulagi þannig að hægt væri að setja upp ráðgefandi stofnun sem væri trú ráðherranum, þ.e. sem stjórnvöld gætu leitað til, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, án þess að það sé borið á torg og afvegaleitt eða endurflutt í fjölmiðlum jafnóðum. Það er mergurinn málsins.

Ég var ekki að segja að allir í Náttúruverndarráði væru öfgamenn eða starfsemin hefði öll verið öfgafull. Þar hafa hins vegar komið upp öfgafullar skoðanir. Ég skrifaði það meira að segja niður hjá mér, að það hefðu verið öfgafull sjónarmið sem hefðu hamlað gagnsemi Náttúruverndarráðs á undanförnum árum.

Mér finnst að það þurfi að koma skýrt fram hérna nákvæmlega hvað menn meina þegar þeir tala um öfga, en afvegaleiða ekki umræðuna eða afflytja hana, eins og vinstri grænir gera hér í þingsalnum og herma upp á nánast öll önnur samtök sem standa að náttúruvernd í landinu.