Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:11:50 (1017)

2001-11-01 14:11:50# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Aðeins um þetta lagafrumvarp um leigubifreiðar. Það er margt rétt sem hér hefur komið fram í ræðum hv. þm. varðandi frv. og vissulega mun það verða skoðað af kostgæfni í samgn. Allar götur frá 1904 hefur verið stundaður hér leiguakstur og auðvitað er full ástæða til að lagasetning sem lýtur að þessari atvinnugrein sé vönduð og sé, eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum, aðlæg að starfseminni og geri henni gott eitt. Allir þurfa aðhald, allir þurfa reglur til að vinna eftir, og það er náttúrlega kjarni málsins.

Það er nokkuð þröngur stakkur skorinn með því að setja þessi ákvæði og eftirlit laga og reglugerða inn til Vegagerðarinnar og sýnist hverjum sitt þar um. Menn tala um það sem eðlilegt að sveitarfélögin taki þetta verkefni að sér en þá er rétt að geta þess að í Reykjavík og nágrenni er gert ráð fyrir 570 leigubílum, í Reykjanesbæ og nágrenni 40, á Akureyri 22 og á Selfossi 7. Síðan eru fleiri leigubílar til staðar í flestum sveitarfélögum. Ég vil aðeins grípa hér niður víðar, t.d. eru á Akranesi 6, Borgarnesi 2, Reykholti 2, Snæfellsbæ 4, Patreksfirði 2, Bolungarvík 2, Ísafirði 7, Blönduósi 3, Sauðárkróki 4, Ólafsfirði 2, Húsavík 4, Egilsstöðum 7, Breiðdalsvík 2, Vestmannaeyjum 6, Hvolsvelli 2, Flúðum 2, Þorlákshöfn 3 og Grindavík 3 auk fjölda annarra sveitarfélaga þar sem einn leigubíll er til staðar. Ég spyr nú hv. þm. sem hafa gert því skóna að það sé eðlilegt að sveitarfélögin sjái um útgáfu og eftirlit með þessum fjölda bíla --- við vitum það og var komið aðeins inn á það mál að nokkur stéttarfélög leigubílstjóra væru nú starfandi og það væru mismunandi áherslur og skoðanir sem þeir hefðu á þessari lagasetningu eða lögunum yfirleitt eins og þau eru í dag, hvað þá þeirri breytingu sem nú er verið að gera. Ef nú bættust við öll þessi sveitarfélög sýnist mér í fljótu bragði að það gæti leitt til meiri vanda en það leysti sem hér er gert ráð fyrir í þessum lögum. Ekki svo að skilja að ég trúi ekki og treysti sveitarfélögum til þess að hafa gott eftirlit með þessu en ég tel samt að það sé eðlilegt að þessi málaflokkur sé á einni hendi eins og verið hefur fram að þessu. Ég tel að það sé gott fyrir viðskiptavinina og ég tel að það sé líka gott fyrir þau stéttarfélög leigubifreiðastjóra sem eru til í dag.

Við skulum líka aðeins koma inn á það hvers vegna yfir höfuð þurfi lög og reglur gagnvart leigubílstjórum. Af hverju er ekki frjálsræði þar ríkjandi? Í einu Norðurlandanna, nánar tiltekið í Svíþjóð, var tekinn upp sá háttur að gefa leiguakstur frjálsan. Menn sjá mikið eftir þeim degi þegar sú ákvörðun var tekin af hálfu opinberra stjórnvalda. Þá upphófst sú óáran að fólk þorði ekki að senda barnfóstrur heim í leigubílum vegna þess að það vissi ekkert hver ökumaðurinn var og engir möguleikar voru til að rekja hver var bifreiðastöðin ef vandamál komu upp.

[14:15]

Þannig var heldur ekkert eftirlit með gjaldskrám og mikið var um að við flughafnir væru óprúttnir aðilar sem flögguðu merkjum um að þeir væru leigubílstjórar og jafnvel gáfu það í skyn að þeir væru á leigubílastöð og verðlagning í samræmi við það. Nú má segja að það sé ekki óeðlilegt þó að Verðlagsstofnun gefi hér upp einhvern hámarkstaxta og leigubílstjórar geti síðan dansað innan þess ramma eins og þeim sýnist. Ég tel að við séum á réttri braut með því að hafa ákveðinn lagaramma um leigubílaaksturinn.

Eins og hér hefur verið komið inn á líka í tilefni þess þegar verkfall var hjá fólksflutningabílstjórum, eða rútubílstjórum eins og sagt er á vondri íslensku, kom oft upp mikið vandamál við Leifsstöð og sú spurning heyrðist hvers vegna Reykjanesskaginn væri ekki eitt svæði leigubíla. Hvers vegna mega ekki leigubílar sem fara til Keflavíkur taka farþega þar og keyra í höfuðborgina aftur? Hvers vegna þurfa notendur leigubifreiða að greiða tvöfaldan taxta eftir að þeir eru komnir í ákveðna fjarlægð frá Reykjavík? Vegna þess að viðkomandi leigubíll má ekki taka farþega til baka. Ef við ræðum hins vegar við leigubílstjóra í Keflavík segja þeir að þetta komi ekki til greina því að ef þessi meðferð verði á málum þeirra, að allar girðingar verði felldar niður, muni það leiða til þess að leigubílastöð í Keflavík muni ekki lifa lengi. Því held ég að það sé rétt að félög leigubifreiðastjóra sjái um sínar girðingar og að við förum ekki að rugga bátnum meira en þörf krefur. Hins vegar er full ástæða fyrir löggjafann að huga að því hvort ekki sé eðlilegt að sú þjónusta sem við erum að binda lög um standi til boða í því frjálsræði að verðlagningin og hagræðingin sé með þeim hætti að viðskiptavinir njóti góðs af. En það er reyndar ekki á dagskrá hér.

Hins vegar nokkur orð út af þeim ummælum sem hér hafa fallið um orlof og veikindi. Ég get alveg tekið undir að þau ákvæði eru nokkuð hörð varðandi þessi atriði, ef leigubifreiðastjórar veikjast. Hins vegar eru orlofsmálin auðvitað líka hlutur sem þarf að skoða. Nokkur breyting hefur orðið á þeim, nú geta leigubifreiðastjórar fengið afleysingamenn frá seinni parti föstudags til mánudagsmorguns, og er það nokkur breyting sem á hefur orðið sem er vissulega jákvætt fyrir neytendur. Það eru þá fleiri leigubílar í umsetningunni þegar þeirra er mest þörf, um helgar.

Það er rétt að koma aðeins inn á það sem hv. þm. Katrín Fjeldsted nefndi hér, að þessi stétt starfar við mjög sérstök skilyrði. Það er óreglulegur vinnutími, það eru miklar næturvökur sem þó hefur aðeins verið litið til með þeim breytingum um helgar sem ég gat um áðan. Það er eitt líka sem leigubílstjórar sinna sem er mikið öryggisatriði fyrir borgarbúa og ekki hefur verið nægur gaumur gefinn að en það er það eftirlit sem leigubílstjórar hafa á götum borgarinnar og þær ábendingar sem þeir hafa verið að gefa lögreglu vegna glæfralegs aksturs eða jafnvel ástands þeirra sem eru á götum úti. Það ber vissulega að þakka, og vissulega ættu lögregla og stéttarfélög leigubifreiðastjóra að efla tengsl sín á milli og samstarf.

Varðandi eignarhald á bifreiðum sem við höfum rætt um, og ræddum mikið á síðasta þingi þegar þetta mál var til umræðu í hv. samgn., þá held ég að menn séu almennt á þeirri skoðun að það sé ekki eðlilegt að vera inni með þau ákvæði sem þar standa. Miklar breytingar hafa orðið á möguleikum til að eignast farartæki með kaupleigu eða mikið til lántöku sem leiðir þá til þess að bifreiðin er ekki skráð á viðkomandi aðila sem lánið hefur tekið eða þann sem stjórnar bifreiðinni.

Sé hins vegar litið til þess sem hefur verið að gerast í kringum okkur á Norðurlöndunum að öðru leyti en því frjálsræði sem ég gat um hér áðan í sambandi við Svíþjóð er ljóst að verðlag leigubifreiðaaksturs hér á Íslandi er ekki hærra heldur en almennt gerist á Norðurlöndunum. Þeir heiðursmenn sem ástunda þessa vinnu hafa þannig ekki í ríkum mæli verið að hækka sinn taxta upp úr öllu valdi og þannig varla sjálfir orðið þess valdandi að viðskipti við þá hafa minnkað. En ég tel, þegar á heildina er litið varðandi þetta frv., að það sé í meginatriðum af hinu góða. Það eru hins vegar, eins og fram hefur komið, nokkur atriði sem hv. samgn. þarf að fara yfir og skoða og sýnist mér að texti frv. sé nú orðinn nokkuð aðlægur þessari starfsemi og hljóti að enda með sátt um þetta mál.

Aðeins af því að ég kom inn á orlofið og veikindin, þá er það rétt sem hér kom fram líka varðandi skyldur leigubílstjóra til þess nánast að gefa upp dvalarstað sinn og svo hvers vegna þeir vilja fá afleysingamenn í störfin. Þetta er mál sem þarf auðvitað að halda á. En í meginatriðum er ég nokkuð sáttur við frv. og, eins og áður hefur verið rætt um og hv. þm. Kristján Möller kom inn á, auðvitað munum við senda þetta mál til umsagnar og leita leiða til þess að frv. sé eins aðlægt þessari starfsemi og hægt er.

Síðast en ekki síst vil ég segja þetta: Ég heyri það á þeim sem hér hafa talað að í grundvallaratriðum erum við sammála um það að lagasetningar sé þörf vegna þessarar starfsemi. Ég tel að það sé af hinu góða, og nauðsynlegt fyrir viðskiptavini leigubifreiðastjóra að hafa þennan háttinn á svo hægt sé að fylgjast nákvæmlega með því hvenær hvaða leigubíll var pantaður í hvaða hús og hvenær hann flutti farþega, hvert og hvenær. Það er ekki að ég sé að hugsa um einhvern eftirlitsaðila, ,,stóra bróður``, heldur er þetta öryggismál.