Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:29:06 (1021)

2001-11-01 14:29:06# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég er um margt sammála hv. þm. varðandi þetta frv. En það sem hvatti mig sérstaklega til að koma í pontu var það sem hv. þm. lét falla um hvort sveitarfélögin gætu tekið þetta mál að sér.

Ég vil bara benda á að að mínu viti er þetta hluti almenningssamgangna og engum dettur í hug að fara að færa Strætisvagna Reykjavíkur undir Vegagerð ríkisins, engum dettur það í hug í sjálfu sér. Sú staða gæti komið upp, og er einmitt víða um land, að einhver getur þurft að hafa milligöngu um að þessi þjónusta sé í boði. Þá gætu t.d. viðkomandi sveitarfélög þurft að sameina ákveðna opinbera þjónustu sem þau vilja axla ábyrgð á og líka möguleika á því að þjónusta sé í boði. Það gildir nefnilega ekki um öll sveitarfélög eins og þau hér á suðvesturhorninu að takmarka þurfi umfang þjónustunnar heldur er alveg eins mikilvægt að tryggja að hún sé fyrir hendi og þá á þeim tímum sem nauðsynlegt er. Þess vegna tel ég að kannski eigi að taka inn í löggjöfina að fundin sé leið til að tryggja að þessi þjónusta sé sem víðast í boði samkvæmt þeim gæðum og þeim kröfum sem við almennt gerum til hennar og þar held ég að sveitarfélögin og heimaaðilar séu miklu betri til að takast á við það heldur en Vegagerð ríkisins.