Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:31:21 (1022)

2001-11-01 14:31:21# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í ákvæðum lagafrv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að sveitarfélögum sé heimilt, óski þau eftir því, að sjá um leigubílastöðvar eða hafa eftirlit með þeirri starfsemi.

Varðandi það hvort við þurfum að stuðla að því eða hafa milligöngu um að þessi þjónusta sé í boði vísa ég til þess sem ég las hér upp áðan. Hv. þm. Jón Bjarnason hafði þá skroppið aðeins frá, úr salnum, og hefur líklega ekki hlustað á þann upplestur. Ég spyr t.d. hv. þm. hvort hann viti að tveir leigubílar eru á Flúðum. Veit hann að í Reykholti eru tveir leigubílar? Veit hv. þm. að á Patreksfirði eru tveir bílar og á Blönduósi þrír? Þessi þjónusta er því til staðar sem betur fer, eins og ég gat um áðan. Hér er ég að telja upp þá staði þar sem eru fleiri en tveir leigubílar. Auk þess mætti nefna fjölmarga aðra staði, t.d. Búðardal, Reykjahlíð, Kópasker, Höfn, Vík, Hellu, Selfoss og fleiri staði þar sem þessi þjónusta er í boði.

Ég er einfaldlega að segja að ég tel höfuðnauðsyn fyrir alla sem að þessu máli koma, löggjafann, þá sem aka leigubílum og þá sem nýta sér leigubíla, að samræming sé í hlutunum. Ég verð að segja að ég treysti Vegagerðinni best til að hafa heildaryfirsýn yfir þessi mál.