Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:35:01 (1024)

2001-11-01 14:35:01# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hagsmunagæsla leigubílstjóra hefur alltaf verið sterk og þeir hafa gætt hagsmuna sinna vel. Hægt er að segja um þá eins og trillukarla að þeir reka sín einakfyrirtæki og fylgjast nákvæmlega með því sem er að gerast í umhverfi sínu. Mér hefur alltaf fundist auðvelt að leita til leigubílstjóra því að þeir eru mjög meðvitaðir hver og einn um sinn rétt.

Ég hef haft samband við nokkra sem starfa í þessum geira og þá út af þessu sérstaka frv. Ég heyri ekki annað en að menn séu þokkalega ánægðir með það sem er að gerast hér og ekki síst að til standi að samræma aðgerðir og setja undir einn hatt málefni leigubílstjóra. Ég heyri ekki annað en það finnist leigubílstjórum best við frv. Þar með er ekki sagt að ekkert sé að þessu, en þó færast mun fleiri mál til betra horfs. Meðal annars hefur verið sagt í mín eyru varðandi uppáskriftir sem leigubílstjórar hafa þurft að fá vegna veikinda, helgaraksturs eða orlofs o.s.frv., að sumir hafi þurft að hlíta þeim lögum en aðrir ekki, að sumir hafi þurft að leita uppáskrifta meðan aðrir hafi sloppið við það. Ýmislegt annað má svo sem telja upp sem ekki er endilega ástæða til að nefna hér enda mun þetta verða fært til samræmis og ekki er ástæða til að orðlengja það frekar.

Ég er sáttur við að þetta skuli fært undir Vegagerðina og á erfitt með að sjá að heildarsamræming þessra mála mundi verða betri með því að hafa þetta hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það finnst mér vera álíka og þegar talað var um að færa úthlutun aflaheimildanna til sveitarfélaganna á sínum tíma. Ekki eitt einasta sveitarfélag hafði áhuga á því að standa í slíku stríði. Ég á ekki von á því að sveitarfélögin hefðu mikinn áhuga á þessu enda hef ég ekki heyrt leigubílstjóra hafa orð á því að þeir vildu að þetta færi undir sveitarfélögin.

En ég heyri leigubílstjóra kvarta yfir einu atriði og það varðar 2. tölulið 5. gr. þar sem krafist er að leigubílstjórar eigi 35% eignarhlut í þeirri bifreið sem þeir eru skráðir fyrir sem umráðamenn. Það kemur ekki fram í skýringunum með þessari grein að um sé að ræða nýmæli en mér er sagt að þetta séu nýmæli og að í dag séu leigubílstjórar að fjármagna bifreiðakaup sín með 100% lánum, t.d. frá Glitni eða öðrum aðilum, jafnvel hugsanlega bílasölunum sjálfum. Ég þekki það ekki nægjanlega vel. En ég hef heyrt að þeir hafi fjármagnað bifreiðakaup sín með 100% lánum. Hér er náttúrlega verið að taka fyrir það og skylda þá til þess að vera með eigin fjármögnun og þá umfram aðrar stéttir. Við getum tekið vörubílstjóra sem dæmi, þá sem hafa rétt til að keyra vörubíla og hafa atvinnu af því.

Án þess að ég geri miklar athugasemdir við frv. vildi ég þó beina þessu sérstaka atriði til hæstv. samgrh. og hv. samgn. til sérstakrar skoðunar og vildi vita hvort ekki sé hægt að finna þann flöt á þessu máli sem betur fellur að þörfum atvinnugreinarinnar. Þetta hefur reyndar komið fram hér hjá fleiri ræðumönnum. Ég held að frv. sé samið til að gera leigubílstjórunum lífið bærilegra og gera starfsumhverfi þeirra heilbrigðara þannig að þeir sitji við sama borð og aðrir. Að því leyti held ég að hæstv. ráðherra vilji það einnig. Ég vona alla vega að einhverjar skýringar komi á því hvers vegna menn telja þetta nauðsynlegt hjá þessari stétt frekar en öðrum.