Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:15:48 (1040)

2001-11-01 16:15:48# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Málið snýst einmitt um það að grunnþjónustukröfur til póstsins eru ekki skilgreindar, en Póst- og fjarskiptastofnun bar og ber samkvæmt núgildandi lögum að skilgreina þær kröfur. Meðan þær kröfur liggja ekki fyrir er erfitt að framfylgja kröfum sem ekki hafa verið settar fram. Hæstv. samgrh. ber ábyrgð á vinnu bæði Póst- og fjarskiptastofnunar og vinnubrögðum Íslandspósts.

Samkvæmt starfsleyfi Íslandspósts, sem ég er með hér, er honum óheimilt að framselja þetta leyfi. Honum er óheimilt að framselja þessa þjónustu til banka eða sparisjóða, til verslana eða bensínstöðva. (Samgrh.: Það er misskilningur.) Hæstv. ráðherra getur haldið því fram að það sé misskilningur en textinn hljóðar svo:

,,Leyfishafa er óheimilt að framselja rétt sinn og skyldur samkvæmt leyfisbréfi þessu``, sem hljóðar upp á póstþjónustu.

(Samgrh.: Það er ... framsal á skyldum.) Þegar starfsfólk sem innir póstþjónustuna af hendi er ekki lengur ráðið hjá póstinum heldur hjá öðrum vinnuveitanda, er það ekki starfsfólk póstsins. Ég get alla vega ekki skilið það öðruvísi.

Herra forseti. Ég ítreka að frv. sem hér er ætlunin að fá samþykkt breytir því ekki að setja þarf reglur um gæði póstþjónustu og fylgja þeim eftir um allt land og það breytir því heldur ekki að hæstv. ráðherra og aðrir sem að póstþjónustu koma þurfa að hlusta á almenning í landinu þegar hann ber upp óskir sínar gagnvart póstþjónustu. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra ætlar að taka upp málin í Skagafirði. En víðar er pottur brotinn í póstþjónustu í landinu í kjölfar þeirra breytinga sem nú eru í gangi.