Lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:50:36 (1048)

2001-11-01 16:50:36# 127. lþ. 19.6 fundur 150. mál: #A lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda# (EES-reglur) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, á þskj. 150 og er það jafnframt 150. mál þingsins.

Á sama tíma og markaðssetning og viðskipti yfir landamæri aukast, ekki hvað síst á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu, hefur þótt sífellt brýnna að tryggja neytendum ákveðna lágmarksvernd í lögum. Ákvæðum þess frv. sem hér liggur fyrir er einmitt ætlað að styrkja vernd neytenda á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja að þrátt fyrir að nú sé greiðari markaðsaðgangur fyrir fyrirtæki til að selja vörur sínar og þjónustu á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu þá komi það ekki niður á réttarvernd fyrir neytendur.

Með frv. þessu er að því stefnt að innleiða í íslensk lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Tilgangur tilskipunarinnar er ekki að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brotsins er. Hafi þannig t.d. íslenskt fyrirtæki brotið gegn einhverjum þeirra lagaákvæða sem talin eru upp í 1. gr. frv. í einhverju ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þá leiðir af ákvæðum frv. að t.d. umboðsmanni neytenda eða öðru sambærilegu stjórnvaldi frá öðru ríki væri heimilt að krefjast lögbanns hér á heimilisvarnarþingi hins íslenska fyrirtækis. Þannig gerir því tilskipunin þær lágmarkskröfur til aðildarríkjanna að þau veiti aðgang að þeim stjórnvöldum og dómstólum sem séu bærir til þess með skjótum hætti að stöðva brot á þeim tilskipunum og lagaákvæðum settum samkvæmt þeim og taldar eru upp sem fyrr segir í 1. gr. frv.

Alþjóðavæðing og aukin viðskipti yfir landamæri gera kröfur til þess að auka samstarf og eftirlit þeirra sem fara með eftirlit á sviði markaðsfærslu yfir landamæri og jafnframt að tryggja að þeim standi til boða nauðsynleg réttarúrræði ef og þegar þörf krefur eins og ákvæði þessa frv. miða að.

Ég vil þá, með leyfi forseta, víkja að einstökum greinum frv.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að stjórnvöld eða samtök sem sérstaklega hafa verið tilgreind í samræmi við ákvæði 2. og 3. gr. geti leitað eftir því að lagt verði lögbann hér á landi við athöfn sem telja verði að stríði gegn ákvæðum þeirra tilskipana sem taldar eru upp í þessari grein. Sem dæmi má nefna að markaðssetning frá Íslandi kann að brjóta gegn lögum um villandi og ólögmætar auglýsingar í því ríki sem markaðssetningin beinist að.

Í 2. gr. er tekið fram að tilkynna skuli til Eftirlitsstofnunar EFTA um þau stjórnvöld eða samtök sem skuli hafa rétt og skyldu til að bregðast við slíkum brotum. Með sama hætti munu aðildarríki Evrópusambandsins tilkynna til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um þá aðila sem hafa samsvarandi rétt og skyldu til að vernda heildarhagsmuni neytenda í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Í 3. gr. kemur fram að viðskrn. mun hafa umsjón með ákvæðum þessa frv. en jafnframt getur ráðuneytið samkvæmt ákvæðinu tilnefnt íslensk félagasamtök sem gæta hagsmuna neytenda á tilteknum sviðum. Tilkynna skal um allar slíkar tilnefningar til Eftirlitsstofnunar EFTA svo og breytingar á þeim eða afturköllun tilnefningar.

Í 4. gr. frv. kemur fram sú meginregla frv. að þeim erlendu aðilum sem tilnefndir hafa verið til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA sé heimilt að leita eftir því við innlendan dómstól að lagt verði á lögbann gegn athöfn sem talin er brjóta gegn þeim ákvæðum sem talin eru upp í 1. gr. frv. Jafnframt er framangreindum aðilum veitt heimild til að höfða einkamál hvort heldur er til staðfestingar slíku lögbanni eða til þess að fá slíka athöfn eða athafnir bannaðar með dómi.

Í 5. gr. er að finna tilvísun til þeirrar tilskipunar sem ákvæði þessa frv. byggja á.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um einstakar greinar frv. og legg til að frv. verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. efh.- og viðskn.