Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 17:21:10 (1055)

2001-11-01 17:21:10# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það kann að vera rétt að æskilegt sé að ákveðinn aðili eins og t.d. búnaðarsambandið sem reyni að koma á sáttum. En í þessum lagatexta er talað um að búnaðarsambandið tilnefni fagaðila til að skera úr. Þar með er búnaðarsambandið orðið úrskurðaraðili. Ég hefði talið æskilegra að eftir að þessi sáttaleið hefur verið gengin til enda og það þarf að skera úr um málið, væri ákveðnari málatilbúnaður um hvernig ætti að standa að þeim úrskurði. Þar gætu komið að t.d. fulltrúar frá búnaðarsambandinu og sýslumanni og þá einhver ákveðinn þriðji aðili til viðbótar til að kveða upp slíka úrskurði.

Það koma svo erfið mál upp í sambandi við svona að það þarf að ganga frá þeim þannig að það renni ekki allt beint áfram til Hæstaréttar sem upp kemur.