Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 17:05:42 (1152)

2001-11-02 17:05:42# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja um. Í fyrsta lagi fannst mér hæstv. ráðherra ekki tala mjög skýrt um hvað hann væri tilbúinn að gera í sambandi við dagabátana. Mig langar til að athuga hvort hann getur ekki komið því svolítið skýrar frá sér, hvort hann er ekki tilbúinn til að leita leiða til að þessi floti fái framtíðarstöðu sem geri mönnum kleift að vinna við þetta sem atvinnuveg og það sé ekki innbyggt í fyrirkomulagið að þeir veslist upp hægt og hægt eins og það er núna, með skerðingunni sem þarna er.

Síðan vil ég lýsa yfir vonbrigðum mínum með svar hæstv. ráðherra gagnvart því að þær aflaheimildir sem honum er falið að úthluta samkvæmt frv. verði með sama hætti verslunarvara og aðrar aflaheimildir.

Ég átta mig ekki alveg á því hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að leggja til aflaheimildir á einhvern stað, láta menn hafa aflaheimildir vegna þess að það sé mjög vond staða í viðkomandi byggðarlagi en síðan sé það ekki skilyrði fyrir slíkum heimildum að þeir noti þær á þeim stað, atvinnulífinu þar til framdráttar. Ég tel að það sé ekki gott ef þessar veiðiheimildir fá það orð á sig að þær verði notaðar í braskinu. Það verður nógu umdeilt þetta fyrirkomulag sem hér er verið að koma á.