Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:06:24 (1224)

2001-11-06 15:06:24# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. félmrh. mælt fyrir á nýjan leik frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga.

Þetta er frv. sem var lagt fyrir á síðasta þingi og hlaut mjög jákvæðar undirtektir, ekki hvað síst t.d. af minni hálfu vegna þess að hér er um heildarlöggjöf að ræða sem varðar atvinnuréttindin.

Í vinnu nefndanna voru nokkrir þættir sem við hefðum gjarnan viljað láta skoða betur og láta breyta. Ég sé að tekið hefur verið tillit til sumra þátta en ekki annarra núna þannig að við munum eflaust skoða þá aftur í nefndinni þegar að því kemur.

Svo fór auðvitað að málið var ekki afgreitt síðasta vor vegna þess að það hangir á sömu spýtu og stóra útlendingalöggjöfin þannig að allur þessi útlendingapakki, ef maður getur orðað það svo, var settur í frysti og tekinn upp aftur á nýjan leik á þessu þingi.

Það sýnir líka, eins og margir hafa bent á, að það er mjög bagalegt að öll þessi mál eins og þau leggja sig skuli ekki vera á einni hendi. Það er eiginlega mjög slæmt og líka upp á það að yfirsýnin sé á einum stað. Hins vegar eru gerðar afar gagnlegar tillögur hér um samstarf til þess að koma á móts við þetta. En ég held að það sé það sem koma skal að útlendingamálin verði öll undir einu ráðuneyti, hvort sem það verður félmrn. eða dómsmrn.

Það eru mjög margir jákvæðir þættir í frv. Hv. formaður nefndarinnar, Arnbjörg Sveinsdóttir, gerði að umtalsefni það sem við hefðum viljað breyta, þ.e. að tala ekki um tímabundið atvinnuleyfi heldur bundið atvinnuleyfi. Sú hugmynd kemur til náttúrlega ekki hvað síst út frá því að þeir starfsmenn sem hér um ræðir eru algjörlega bundnir atvinnurekanda sínum, þannig að það skýrir það líka. Það verður kannski öðrum að yrkisefni hér í salnum að sjá hvort það sé alltaf algott.

Við hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vildum hafa pípurnar dálítið opnar í báða enda og komum með brtt. um það þar sem við tölum um tímabundin leyfi veitt atvinnurekanda eða útlendingi. Við vildum opna gáttina þannig að hún væri bæði fyrir fyrir atvinnurekandann og þann sem sækir um vinnuna. En við sjáum hvað setur.

Jafnframt var ekki tekið tillit til þess að hafa sérstaka skilgreiningu á nánustu aðstandendum, en nefndin var sammála um að afar mikilvægt væri að fram kæmi hverjir það væru. Við vorum með skilgreiningu á því og það var makinn, niðjar, systkini og foreldrar.

Við munum eflaust skoða þetta allt í nefndinni núna og það má eflaust búast við tiltölulega skjótum vinnubrögðum en góðum því þetta mál var mjög vel rætt í nefndinni.

Það sem kannski einkennir það af hverju þetta frv. er jafn vel úr garði gert og raun ber vitni er að að því hafa komið þeir sem í raun vinna með málin dagsdaglega og það lýsir sér dálítið í þessari vinnu, þ.e. verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur. Við lítum svo á að verkalýðshreyfingin sé málsvari þess hóps sem hér er verið að fjalla um.

Hins vegar væri afar fróðlegt að taka saman hvaða fyrirkomulag er í öðrum löndum, hvort eignarhaldið á starfsmönnum sé jafnafgerandi og hér er. Það væri fróðlegt að kalla eftir slíku í nefndinni.

Hvað 9. gr. varðar þá sagði ég hér síðast, og ég vil gjarnan segja það aftur, að nálgunin er afar jákvæð. Sú nálgun er að bæði atvinnurekendur og stéttarfélög koma að íslenskukennslu og samfélagsfræðslu.

Hv. formaður félmn. nefndi líka ferð nefndarinnar ásamt allshn. á Vestfirði. Hún var alveg einstök, enda eiga Vestfirðir sér langa sögu í að sækja sér nám og vinnu erlendis frá þaðan sem þeir eru og þeir hafa í marga áratugi tekið á móti útlendingum sem hafa þar starfað. Kannski er því viðmótið þar orðið mun þroskaðra en á öðrum landsvæðum. Ég veit það ekki. En það er alltaf jafnánægjulegt að koma þar og ræða þessi málefni því þar eru ekki vandamál, heldur fyrst og fremst eitthvað sem maður leysir. Þetta viðhorf eigum við að nýta okkur meira, þ.e. að vera ekki með vandamálasýn heldur lausnarsýn.

Um 9. gr. um íslenskukennsluna og samfélagsfræðsluna vil ég bæta við að við þyrftum að taka betur á útfærslum, t.d. í greinargerð. Við gætum þá rætt það við þá aðila sem að því koma af því að þetta er kannski full opið eins og þetta er hér.

Mig langar aðeins að gera 7. gr. að umtalsefni vegna þess að þar er búið að bæta inn í afskaplega góðu atriði þar sem talað er um að heimilt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna útlendings sem sótt hefur um hæli. Það er afar jákvætt að þetta sé komið inn og að brugðist hefur verið við þeim göllum sem voru afar sýnilegir.

Í 11. gr. er talað um maka og sambúðarmaka, sem er mjög mikilvægt, þannig að við séum þá í raun komin með sömu réttarstöðu eins og er nýtt hér varðandi sambúðarformið sem slíkt. Ýmislegt jákvætt hefur því líka gerst í vinnunni sem núna stendur yfir.

Mig langar að gera 12. gr. að umtalsefni og beina því til hv. formanns nefndarinnar að við ættum að skoða hana nánar. Við erum að tala um námsmenn. Þeir eru með sex mánuði í senn í leyfi. Ég held að það ætti að skoða það að hafa það jafnlengi og skólaárið þannig að við séum ekki að gera hlutina of erfiða fyrir þann hóp sem kýs að stunda hér nám og flækja það um of. Ég óska eindregið eftir því að við ræðum það sérstaklega í nefndinni.

Ég er líka ánægð með hvernig búið er að raða 15. gr. öðruvísi en gert var í fyrra frv. Nú er búið að taka af allan vafa með dansarana á næturklúbbum. Hins vegar eimir alltaf dálítið eftir af gömlum fordómum í garð listamanna vegna þess að frv. tekur ekki tillit til þeirra hljómlistarmanna sem spila á skemmtistöðum. Þar eimir eftir af gamalli fortíð, þ.e. að þar væri nú bara sollurinn. En það spila auðvitað afar margir góðir, menntaðir hljóðfæraleikarar líka fyrir dansi, og þó erlendir séu. Því væri gaman að skoða það líka aftur.

Varðandi heimflutninginn sem fjallað er um í 18. gr. þá þyrftum við líka að skoða það núna í ljósi t.d. umræðunnar sem verið hefur í allshn. um mjög mikið aukið fjármagn til ríkislögreglustjóra vegna eftirfylgni þeirra með erlendu fólki úr landi. Við þyrftum að skoða hvernig þetta skarast því hér er talað um hver eigi að bera þann kostnað. Ég vildi því gjarnan fá að skoða um hvaða hópa hér er að ræða og þá hvaða hópa um er að ræða sem ríkislögreglustjóri er að fylgja úr landi þannig að við hefðum þá hluti á hreinu.

Það verður bæði fróðlegt og ánægjulegt að vinna áfram með þetta mál í hv. félmn. Aðrir munu eflaust gera að umtalsefni fleiri þætti, en ég læt þessa duga að sinni.