Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:35:54 (1281)

2001-11-07 14:35:54# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aftur beinist fyrirspurn mín til menntmrh. og ég ætla að vona að hæstv. ráðherra taki það ekki illa upp að málaflokkum hans almennt sé sýndur áhugi. Hæstv. ráðherra gerði réttara í því að mínu mati að fagna liðsmönnum, áhugamönnum um varðveislu menningar eða það sem hér á við, uppbyggingu menningarstarfsemi.

Herra forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði áformum um að byggja menningarhús á landsbyggðinni. Það mun hafa verið 7. janúar 1999, fyrir tæpum þremur árum, sem mikið var haft við og ríkisstjórn Íslands kynnti áform sín um að reisa menningarhús á landsbyggðinni. Það dugði ekki minna til en fjórfalt ráðherragengi á blaðamannafundi til að kynna þau glæstu áform. Ég veit að mönnum er enn í fersku minni sumum hverjum hversu glæsilegt þetta sett var þegar það kynnti hin stórbrotnu áform um byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni og tilgreindir voru fimm staðir: Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar, en forsrh. vildi þó hafa þann varnagla á að hann útilokaði ekki þann möguleika að menningarhús mundu rísa á fleiri stöðum. Það var því ekki ástæða til að vefengja að þetta mundi ganga í gegn varðandi þessa fimm staði. Óvissan laut frekar að því hvort fleiri yrðu þarna með.

Herra forseti. Það eru liðin næstum þrjú ár síðan þessi glæsilegu áform, vel að merkja nokkru fyrir alþingiskosningar 1999, voru kynnt og engin leið að ráða annað af framsetningu málsins en að þessum áformum yrði fylgt eftir af fullum myndugleik og þau mundu verða að veruleika á allra næstu missirum. Þannig var t.d. strax fáeinum dögum seinna eða mjög fljótlega skipuð nefnd til þess að endurskoða ákvæði um félagsheimili og fleira í þeim dúr var gert sem átti að sýna mönnum hversu rösklega yrði á þessu tekið.

Í blaðaúrklippum frá næstu dögum eru fyrirsagnir eins og ,,Vel tekið í hugmyndir um menningarhús``, og talað var við forsvarsmenn í öllum þessum sveitarfélögum og yfirleitt var hugmyndunum vel tekið með nokkrum fyrirvörum af hálfu einstakra aðila og þá fyrst og fremst um efndirnar. Akureyringar til að mynda tóku þessum áformum strax vel, lýstu sig áhugasama og settu vinnu í gang, mótuðu tillögur og nálguðust ríkisstjórn með tiltölulega mótaðar hugmyndir um hvernig þeir mundu vilja sameina á einum stað myndarlegt menningarhús og jafnvel tengja það ráðstefnuaðstöðu, hótelbyggingu og fleiru.

Síðan líður og bíður og bíður og líður og ekkert gerist. Nú eru að verða þrjú ár liðin og þessi áform eru öll í gufu enn þá. Það er að verða eitt og hálft ár síðan hæstv. menntmrh. norður á Akureyri lét svo að nú fengist botn í þetta mál á allra næstu mánuðum, a.m.k. hvað áformin norðan heiða varðaði. Ég leyfi mér því náðarsamlegast, herra forseti, að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði efndum þeirra fyrirheita ríkisstjórnarinnar frá því fyrir síðustu alþingiskosningar að koma upp menningarhúsum á landsbyggðinni og ég vona að hæstv. ráðherra taki því ekki illa þó að hann sé spurður um hluti af þessu tagi.