Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:44:27 (1283)

2001-11-07 14:44:27# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Okkur eru mörgum í fersku minni þeir gleðistraumar sem fóru um landsbyggðina þvera og endilanga þegar þessi blaðamannafundur var haldinn fyrir síðustu kosningar með miklum bravúr og tilkynnt var um þessi menningarhús sem ætti að reisa á landsbyggðinni. En því miður virðast hæstv. ráðherrar hafa verið nokkuð fljótir á sér þegar þeir boðuðu til þess blaðamannafundar því að síðar hefur komið í ljós að málið hafði aldrei verið rætt, (Gripið fram í: Hvað þá hugsað.) ja, hvað þá hugsað. Síðan hefur það að mér skilst stöðugt verið rætt og hugsað og það er komið í ljós að forráðamenn menningarmiðstöðva sem fyrir eru á landsbyggðinni hafa töluvert aðrar hugmyndir en hæstv. ríkisstjórn boðaði á sínum tíma á títtnefndum blaðamannafundi um hvað komi þeim best í menningarmálum. Nú er komið á daginn að með menningarhúsi meinti hæstv. menntmrh. allt eins menningarsamstarf svo þetta er allt nokkuð óljóst en vonandi þróast málin jákvætt áfram.