Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:51:27 (1288)

2001-11-07 14:51:27# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið nokkuð fróðleg umræða og skýrt ýmislegt. Ég var einn þeirra þingmanna sem skildu aldrei almennilega hvað átt var við með þessu og það hefur komið fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að menn áttu ekki endilega við menningarhús eða hús. Menn áttu alls eins við menningarmál eða menningarsamstarf. Ég var einn þeirra sem hugleiddu þegar þetta kom fram að víða um landið væru félagsheimili sem gengi illa að halda við og mætti hugsanlega nýta í eitthvað af þessu.

Það hefur verið dregið fram í þessari umræðu að auðvitað var þetta ekkert annað en kosningatrikk. Þetta kom fram rétt fyrir kosningar. Menn höfðu augljóslega ekkert hugsað þetta, ekkert rætt þetta, enda er niðurstaðan sú að þeim sem hafa verið boðin þessi hús hafa litið á þetta sem möguleika á einhvers konar vöruskiptum. Menn buðu upp á hús og svarið var: Getum við ekki bara fengið tónlistarsal eða getum við ekki fengið hótel eða getum við fengið hitt og þetta? Menn hafa fyrst og fremst litið á þetta sem vöruskipti. Niðurstaðan er einfaldlega þessi: Þetta var bara kosningatrikk á sínum tíma.