Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:54:10 (1290)

2001-11-07 14:54:10# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég held að síðasti ræðumaður hafi ekki beint skýrt málin með því að rugla inn í umræðuna alls óskyldum hlutum frá ýmsum tímum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Sjálfsagt mál var og er að vinna að áformum af þessu tagi með heimamönnum og auðvitað geta aðstæður verið þannig að aðrar lausnir en bygging húss eða eitt einstakt hús henti betur.

Hitt er alveg ljóst að menn upplifðu þetta fjórfalda ráðherraloforð um menningarhús á landsbyggðinni fyrir kosningar 1999 sem loforð um eitthvað nýtt og stórt til viðbótar þeirri afar takmörkuðu þátttöku sem ríkisvaldið því miður hefur átt í menningarstarfsemi út um landið, þar sem yfirgnæfandi meiri hluti opinberra fjárveitinga til menningarmála rennur hingað til höfuðborgarsvæðisins.

Ég nefndi Akureyri vegna þess að þar er um stórt mál að ræða og vegna þess að þar háttar þannig til að það hentaði heimamönnum akkúrat að taka þessa hugmynd, grípa hana á lofti, gera hana að sinni og taka ríkisstjórnina á orðinu. Það vantar nútímalega aðstöðu í myndarlegu menningarhúsi á Akureyri fyrir leiklistarstarfsemi, tónleikahald og fleira því um líkt plús ráðstefnuaðstöðu þannig að þarna hefði átt að vera alveg klæðskerasaumuð lausn á ferðinni úr því að ríkisvaldið vildi koma með eitthvað út á land í þessum efnum.

En hvers vegna þarf þetta þá að þýða þriggja ára nuð við ríkisstjórnina án þess að nokkuð gerist? Niðurstaða málsins er alveg skýr eins og það stendur í dag. Það er ekkert fast í hendi. Ekki eitt einasta atriði kom fram í svari ráðherrans um handfastar ákvarðanir í formi fjárveitinga, samstarfssamninga, ekki einu sinni viljayfirlýsinga. Það hefur ekki einu sinni verið gefið út ,,letter of intent`` í þessu máli, hvað þá meira. Þannig er staðan eftir næstum þrjú ár. Á það kannski að verða þannig að þetta kosningaloforð verði fjölnotaloforð, það verði svo gjörsamlega óefnt í janúar 2003 að hægt verði að nota það aftur?