Skimun fyrir riðu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:12:59 (1297)

2001-11-07 15:12:59# 127. lþ. 24.5 fundur 153. mál: #A skimun fyrir riðu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda er mikils að verjast í framtíðinni hvað heilbrigði dýra varðar, og þau lönd sem verjast og halda uppi heilbrigði dýra sinna og hreinleika náttúrunnar eiga ýmsa nýja möguleika eins og komið hefur fram hvað okkur varðar. Ég sá það kannski gleggst í Bandaríkjunum í haust, í Freshfield-mörkuðunum, þar sem t.d. íslenskt lambakjöt og fleiri íslenskar afurðir, bæði af landinu og úr sjónum, eru verðlagðar mjög hátt af fólki sem gerir miklar kröfur og vill borga hátt verð fyrir slíkar öruggar og heilbrigðar afurðir. Þarna eigum við Íslendingar mikla og nýja möguleika.

Hvað varðar þessa fyrirspurn, hvort á döfinni sé að taka upp skimun fyrir riðu í nautgripum og sauðfé slátruðu hér á landi eins og nefnd á vegum ráðherra lagði til í skýrslu í mars sl., vil ég segja þetta:

Á undanförnum árum hafa verið rannsakaðir nautaheilar með hefðbundnum riðurannsóknaraðferðum án þess að minnsti grunur hafi komið upp um kúariðu eða BSE hér á landi. Sýnin hafa komið úr nautgripum sem hafa sýnt einhver merki um sjúkdóma í miðtaugakerfinu. Þetta hefur allt verið sent í rannsókn. Á þessu ári hefur sýnum úr venjulegri slátrun nautgripa eldri en 30 mánaða einnig verið safnað. Þegar hafa verið rannsökuð um 280 sýni sem öll hafa reynst neikvæð. Hér bendir því allt til þess, sem við reyndar höfum talið, að við séum lausir við þennan vágest.

Óskað hefur verið eftir mati sérfræðinganefndar Evrópusambandsins um stöðu Íslands varðandi hættu á kúariðu á Íslandi. Niðurstöðu er að vænta á næstunni en fastlega er búist við að Ísland verði sett í 1. flokk með Noregi og öðrum löndum, svo sem Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Í 1. flokk fara einungis þau lönd sem kúariða hefur ekki komið upp í, og hverfandi líkur eru á að hún geti komið upp.

Á þessu stigi hefur ekki verið gerð áætlun um notkun nýrra og fljótvirkra prófa í þessu sambandi en þau verða að fara fram í svokölluðum P-3 rannsóknastofum þar sem gerðar eru strangar ráðstafanir til að fyrirbyggja smitdreifingu. Svo fullkomin aðstaða er ekki fyrir hendi hér á landi til dýrasjúkdómarannsókna. Í ljósi þess er því eðlilegt að byggja umfang og sýnatöku úr nautgripum á niðurstöðum sérfræðinganefndar Evrópusambandsins um áhættuflokkun Íslands sem ætti að liggja fyrir innan fárra vikna.

Ég vil segja það hér að auðvitað er mjög mikilvægt að halda þessu máli, sem hv. þm. minnist á, vakandi. Það er jafnframt klárlega mikilvægt að efla rannsóknir á heilbrigði dýra okkar út af því að við höfum opnað í gegnum alþjóðlega samninga fyrir innflutning eftir ákveðnum og ströngum reglum. Þannig munum við einnig geta varist. Ekki síður er það leiðin til þess að eiga markaði vísari á erlendri grund. Hv. þm. er hér að hreyfa mikilvægu hagsmunamáli Íslendinga og ekki síst íslensks landbúnaðar og vil ég þakka henni fyrir það.

Ég vil segja um beinamjölið og allt það að við vorum gæfumenn í þeim efnum. Páll Pálsson yfirdýralæknir sá fram í tímann á sinni tíð, og fyrir líklega einum tuttugu og fimm árum kom hann því til framkvæmda að Íslendingar nota ekki beinamjöl, hvorki sitt né annað, í fóður þeirra dýra sem eru til manneldis. Höfum við Íslendingar vakið athygli fyrir þessar aðgerðir, fyrir þessa ákvörðun sem tekin var fyrir tuttugu og fimm árum eins og ég sagði. Hann sýndi þá framsýni sem hefur reynst okkur vel.