Skimun fyrir riðu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:17:36 (1298)

2001-11-07 15:17:36# 127. lþ. 24.5 fundur 153. mál: #A skimun fyrir riðu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál snertir einnig kúariðuna og riðu eins og hér hefur komið fram. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra í tengslum við þetta: Stendur til að breyta þeim reglum og samningum sem við höfum gert varðandi hinn innri markað Evrópusambandsins þar sem við ákváðum og samþykktum að standa utan þess innri markaðar hvað varðaði verslun á kjöti og kjötvörum? Í gegnum það einmitt höfum við öðlast þá stöðu og þann rétt sem hæstv. ráðherra vitnaði til, að geta flutt út kjötvörur til Bandaríkjanna, einmitt á þeim forsendum. Mun áfram staðinn vörður um það að við gerumst ekki aðilar að þessum innri markaði og getum þannig líka varið okkur fyrir innflutningi frá Evrópu? Hvernig eru þær reglur sem nú gilda? Hvernig er framfylgt þeim reglum sem gilda um innflutning á kjötvörum frá ESB-löndunum? Er það ekki enn þá bannað?