Skimun fyrir riðu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:18:53 (1299)

2001-11-07 15:18:53# 127. lþ. 24.5 fundur 153. mál: #A skimun fyrir riðu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vildi þakka hæstv. landbrh. fyrir ágæt svör þó kannski hafi þau að sumu leyti valdið mér vonbrigðum. Þau komu mér ekki mjög á óvart samt sem áður.

Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um að okkur er mikil nauðsyn að gæta að heilbrigði dýra okkar og standa vel á verði gagnvart t.d. innflutningi dýra og kjöts sem kynni að bera með sér smitefni. Hins vegar held ég, hvað sem við gerum í því efni, að það kunni að vera nauðsynlegt fyrir okkur, ef við ætlum áfram að geta flutt óhindrað út kjöt sem við viljum selja á góðu verði inn á t.d. markaði Evrópuabandalagsins, að framvísa einhverju öðru en fullyrðingum um að hér hafi ekki komið upp kúariða. Ég fagna því auðvitað að hún hefur ekki komið upp.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hérna hafa ekki allir gripir verið rannsakaðir heldur fyrst og fremst þeir sem hafa sýnt einhver sjúkdómseinkenni. En við vitum að sjúkdómurinn á sér mjög langa meðgöngu áður en hann brýst út í nokkrum einkennum. Þess vegna tel ég að það gæti verið sterkt fyrir okkur að reyna að koma þeirri aðstöðu upp hér á landi að við skimuðum fyrir riðu alla gripi sem koma til slátrunar, ekki síður þá sem ekki hafa enn sýnt merki um kúariðu eða eitthvað sem veldur grunsemdum um kúariðu. Ég held að þetta gæti orðið okkur mikilvægt í framtíðinni því samkvæmt því sem ég hef getað fylgst með þessari umræðu t.d. á vegum Norðurlandaráðs er varfærni mikil og fer vaxandi. Það verður mjög erfitt að komast með okkar kjöt inn fyrir þessar girðingar ef við getum ekki framvísað vottorðum.