Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 11:28:35 (1337)

2001-11-08 11:28:35# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu og sérstaklega það að ég heyri að Fjármálaeftirlitið á mikinn stuðning hér á hv. Alþingi sem ég tel mjög mikilvægt. Það kom einnig fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að skýrslan væri vel unnin. Hún taldi að ráðherra hefði átt að fjalla miklu meira um hana í sínu máli en ég tel að þessi skýrsla skýri sig sjálf ákaflega vel og því sé óþarfi fyrir mig að fara yfir það í sjálfu sér í framsögu heldur sé það ákvörðunarefni þingmanna hvers og eins hversu djúpt þeir vilja fara ofan í þá umræðu.

Vegna þeirra athugasemda og spurninga sem komu fram vil ég segja nokkur orð, m.a. í sambandi við að einhverjar fjármálastofnanir hafi lent í erfiðleikum þá er rétt að fram hefur komið í máli forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins að svo muni vera. Fjármálaeftirlitið hefur bent á að vanskil séu að aukast og framlög á afskriftareikningum hækki og þetta sé eðlilegt í kjölfar mikillar útlánaaukningar síðustu ár og minni umsvifa í þjóðarbúskapnum. Það kemur einnig fram að ekki sé ólíklegt að einhver fjármálafyrirtæki muni lenda í erfiðleikum. En Fjármálaeftirlitið hefur ítrekað að fjármálastöðugleiki sé vel tryggður og það held ég að sé aðalatriðið í þessu máli. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ítrekað staðfest að svo sé, þ.e. að hér sé stöðugleiki þó að einhver hættumerki kunni að vera á ferðinni.

Annað sem hv. þm. nefndi varðar stjórnarlaunin. Það er nú betra að hafa tölurnar á hreinu þegar spurt er um stjórnarlaunin. Þess vegna kom ég með þetta blað. Stjórnarmenn fá 75 þús. kr. á mánuði. Þóknun stjórnarformanns er tvöföld eins og almennt er í sambandi við stjórnarlaun og varastjórnarmenn fá 2/3 af þóknun. Alltaf má deila um það hvort þetta sé hátt eða lágt. Satt að segja er þetta lægra en í þeim fyrirtækjum og stofnunum sem samanburðar var leitað við. Af því að hv. þm. hafði sérstakar áhyggjur af seðlabankastjóra sem þarna situr í stjórninni þá vil ég geta þess að laun hans ganga beint til Seðlabankans þannig að hann fær þau ekki í eigin vasa.

Það má alveg halda því fram að mikil ábyrgð fylgi því að sitja í þessari stjórn og krafist er fagþekkingar. Hæfisreglur eru strangari en almennt gerist og viðkomandi stjórnarmenn mega ekki eiga bréf í eftirlitsskyldum félögum og þeir mega ekki taka að sér verkefni fyrir eftirlitsskyld félög. Ég vil meina að í því felist ákveðinn fórnarkostnaður. Ég tel ekki að hægt sé að halda því fram að þetta séu óeðlilega há laun.

[11:30]

Það að varastjórnarmenn fái 2/3 af þóknun kemur til af því að þó nokkuð er um vanhæfi og þess vegna þarf að kalla þá til í sambandi við ákvarðanatöku. Því er mikilvægt að þeir hafi heildaryfirsýn og samfellu í umfjöllun um mál í stjórninni. Þetta vildi ég segja um stjórnarlaunin.

Síðan var spurning um íþrótta- og gististyrki sem ég ætla ekki að fara út í. Það er ekki mál sem kemur á mitt borð, en skýringar eru í frv. á bls. 5 og 6 á þessu atriði.

Um viðbrögð almennt við athugasemdum af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bendi ég á miðopnu í frv. þar sem farið er yfir þessi atriði og hver hefur forræði og hvaða aðgerðir eru í gangi. Ég tel mjög mikilvægt að fá þessa úttekt hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Að sjálfsögðu tökum við þessar athugasemdir alvarlega. Margar þeirra eru nú þegar komnar í farveg og aðrar verða skoðaðar með tilliti til þess.

Hv. þm. nefndi sérstaklega atriði sem fjallað er um á bls. 37 að hætta sé á skörun í eftirlitsskyldum Fjármálaeftirlitsins sem annars vegar á að fylgjast með traustleika vátryggingafélags og hins vegar hvort iðgjöld séu ósanngjörn í garð vátryggingartaka. Hv. þm. lýsti mjög miklum stuðningi við Fjármálaeftirlitið í sínu máli, og þegar það kemur fram með þá skoðun að það telji ekki tímabært nú að lækka t.d. iðgjöld bifreiðatrygginga, þá tel ég að maður geti ekki annað en tekið það nokkuð alvarlega. En þetta er umræðuefni sem er mjög uppi hér og hv. þm. hefur haldið því mjög vakandi og er ekkert nema gott um það að segja.

Um eiginfjárhlutfallið vil ég segja að mér finnst skynsamlegt að Fjármálaeftirlitið fái heimild til þess að gera þar kröfur. Ég bíð eftir því að fá tillögur frá bankalaganefnd um þetta mál. Hv. þm. veit það. Það kom fram í máli hennar, fannst mér, að þetta þarf líka að skoðast í alþjóðlegu ljósi, sérstaklega með tilliti til nýrra eiginfjárreglna frá Basel, svokölluðum BIS-reglum sem eru núna í endurskoðun. En það kom fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að hann telji að Fjármálaeftirlitið eigi að fá þessar heimildir og ég tek undir það.

Um lífeyrissjóðina og fjárfestingarstefnu þeirra væri í sjálfu sér hægt að hafa ýmis orð. Mér fannst nú dálítið athyglisvert að heyra formann þingflokks Vinstri grænna verja kaup lífeyrissjóðanna á hlutum erlendis. Það er ekki alveg í samræmi við þá stefnu sem Vinstri grænir hafa almennt, finnst mér. Verið getur að það komi til af því að hann er formaður í stærsta lífeyrissjóðnum. Hann taldi ekki athugavert að þeir fjárfestu erlendis. Ég tel það hins vegar miklu síðra en geri mér grein fyrir því að það er ekki nokkur leið að koma í veg fyrir það, m.a. vegna þess að við eigum aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.

Um Búnaðarbankann er það að segja og rannsókn sem fer fram hjá ríkislögreglustjóra að henni er ekki lokið miðað við það að ekki hafa borist neinar upplýsingar um að þetta sé fullrannsakað. Meðan svo er get ég í sjálfu sér ekki haft önnur orð en þau að ég bíð eftir þessari niðurstöðu. Einhvern tíma hafði ég spurnir af því að henni ætti að ljúka núna á haustmánuðum þannig að ég held að það hljóti að styttast í að þessu ljúki. En ég geri mér fulla grein fyrir því að embættið eða efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur gríðarlega mörg verkefni að fást við. Hins vegar skrifaði ég bréf til embættisins strax og málinu var vísað til þess og óskaði eftir því að þessari rannsókn yrði hraðað. Engu að síður standa mál eins og raun ber vitni.