Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 11:54:05 (1341)

2001-11-08 11:54:05# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að meðan ég mæli fyrir þessu máli um brunatryggingar þá finnst mér afar mikilvægt að hæstv. viðskrh. verði viðstödd þessa umræðu en þetta mál heyrir undir hana og ég vildi gjarnan heyra skoðun hæstv. ráðherra á nokkrum atriðum varðandi málið.

Markmið þessa frv., sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Ögmundi Jónassyni, Rannveigu Guðmundsdóttur og Guðjóni A. Kristjánssyni, er að afnema heimild til afskrifta á vátryggingarverðmæti húseigna og að vátryggingarverðmæti húseigna verði miðað við byggingarkostnað án afskrifta, þ.e. endurstofnverð eignarinnar. Í samræmi við það á brunabótamatið að endurspegla raunverulegt verðmæti eignarinnar miðað við að fasteignaeigendur verði jafnsettir fyrir og eftir brunatjón, sem er í samræmi við meginreglu vátryggingaréttar. Eftir sem áður verður Fasteignamati ríkisins að sjálfsögðu heimilt að samræma brunabótamat á sambærilegum eignum, eins og reyndar er kveðið á um í 2. gr. laga um brunatryggingar, þar sem segir að stofnunin geti endurmetið skyldutryggðar húseignir, þegar hún sér ástæðu til.

Ég held, herra forseti, að þegar frv. var samþykkt á árinu 1999 sem heimilaði þessar afskriftir þá hafi það verið hrein mistök og að þingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir því sem þar var á ferðinni. Ég hef farið ítarlega yfir framsöguræðu viðskrh., yfir nál. efh.- og viðskn. --- en ég átti þá ekki sæti í nefndinni --- og í umræðum hér í þinginu um þetta frv. ráðherrans var ekki vikið einu orði að því að verið væri að heimila þessar afskriftir. Í framsöguræðu ráðherrans er ekki orð um þetta og ekki heldur í nál. Í ræðu ráðherrans og í nál. efh.- og viðskn. er einungis sagt að frv. sé til komið vegna gagnrýni Bændasamtakanna vegna van- eða ónýttra húseigna á jörðum, vegna breyttra búskaparhátta og brunabótamatið væri óeðlilega hátt á slíkum eignum. Um þetta snerist umræðan í þinginu, athugasemdir Bændasamtakanna út af ónýttum húseignum á jörðum.

Það var enginn hér inni, ég fullyrði það, sem gerði sér grein fyrir þeim víðtæku áhrifum sem þessi lagasetning hefði. Ég efast um að ráðherrann hafi gert það sjálfur. Alla vega taldi hann ekki ástæðu til þess að nefna þetta einu orði í framsögu sinni. En áhrifin af þessum breytingum, bæði á fasteigna- og brunabótamatið, munu verða mjög víðtæk. Tryggingarvernd fasteigna í brunatjóni mun minnka verulega. Veðhæfni eigna verður mun minni, sem rýrt getur verðgildi eigna. Verðmyndun á fasteignamarkaði skekkist. Lán til fasteignakaupa verða dýrari, sem leitt getur til aukinna greiðsluerfiðleika heimilanna. Og ég segi líka að lögmál framboðs og eftirspurnar á fasteignamarkaði breytist vegna áhrifa brunabótamats en með því eru innleidd ríkisafskipti af verðstýringu fasteigna. Breyting á fasteignamatinu hefur áhrif á skattstofna sem leitt getur til skattahækkana nema ríki og sveitarfélög grípi til sérstakra ráðstafana eins og forsvarsmenn þeirra lofuðu að gert yrði fyrr í sumar. Eftir því verður vissulega gengið að af hálfu fjmrh. verði fyllilega við það staðið.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur lýst því yfir, mér skilst að það sé í fjárhagsáætlunum borgarinnar fyrir næsta ár, að tekið verði tillit til þess að þessar breytingar á brunabóta- og fasteignamatinu hafi ekki áhrif í þá veru að hækka fasteignagjöld. Það er hins vegar algjör óvissa varðandi önnur sveitarfélög. Hvað gera t.d. Kópavogur og Hafnarfjörður? Að því er það varðar er einnig alger óvissa.

Ég vil geta, herra forseti, annars frv. sem ég hef líka ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flutt samhliða þessu frv. Það er breyting á lögum um húsnæðismál sem er ætlað að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar sem að óbreyttu blasa við mörgum heimilum, en frv. um breytingu á lögum um húsnæðismál felur í sér að brunabótamat verði ekki lengur mælikvarði á veðhæfni eigna. Það hefði víðtækar afleiðingar, ekki síst fyrir eigendur minni íbúða, að miða lánshæfi við brunabótamat. Ég ætla hins vegar ekki að fara mikið inn í það í þessari umræðu og það bíður þá umræðu um það frv. sem er nú ekki á dagskrá.

Bæði fasteignamat og brunabótamat eru grundvöllur skattlagningar. Hækkun á fasteignamati leiðir til hækkunar á fasteignagjöldum, eignarskatti, erfðafjárskatti og stimpilgjöldum og getur auk þess leitt til lækkunar á vaxtabótum. Þessu fylgja því mjög víðtæk áhrif á skattstofna og síðan eru ýmis gjöld sem eru tengd brunabótamati, svo sem brunavarnagjald, umsýslugjald, iðgjöld viðlagatrygginga og skipulagsgjald, svo og gjald til Ofanflóðasjóðs. Þessi gjöld, að frátöldu skipulagsgjaldi, námu á sl. ári 1.100--1.200 millj. kr. Þessi gjöld munu væntanlega lækka og rýra um leið tekjur Fasteignamats ríkisins.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún muni ekki fylgjast með því, af því að við vorum að ræða um tryggingafélögin áðan, hvort breyting á brunabótamatinu hafi þá ekki áhrif á iðgjöldin, þ.e. þegar brunabótamat lækkar, iðgjöld tryggingafélaganna vegna brunatrygginga. Hefur ráðherrann fylgst með því? Getur ráðherrann upplýst þingið um það hvernig tryggingafélögin muni haga sér í því sambandi?

[12:00]

Ég tel, herra forseti, að afskriftareglan sem heimiluð var með lögunum frá 1999 vegi mjög þungt fyrir tugi heimila í landinu. Ég óskaði eftir upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins og þar kom fram að samkvæmt upplýsingum frá þeim lækkar brunabótamat meira en sem nemur afskriftunum á rúmlega 35 þús. af 102 þús. eignum í landinu eða um 34,5% af heildinni sem er meira en afskriftahlutfall eða að meðaltali um 20% eða tæplega 2,7 millj. kr. að meðaltali á þessar íbúðir. Þetta er gífurleg lækkun á brunabótamatinu. Og það er athyglisvert að brunabótamatið lækkar meira en sem nemur afskriftum hjá rúmlega helmingi fasteignaeigenda í Reykjavík, og 31.800 eignir eða 31,2% eignanna hækka í brunabótamati að meðaltali um 24% eða 1,4 millj., og 35 þús. eignir eða 34,3% eignanna lækka í brunabótamati en minna en afskriftahlutfallið, að meðaltali um 9% eða 1.197 þús. kr. Þessar eignir hefðu hækkað í brunabótamati ef afskriftir hefðu ekki komið til. Og samtals lækkar því brunabótamat á tæplega 70 þús. af 102 þús. eignum. Ég spurði hvernig brunabótamatið hefði litið út ef ekki hefði verið tekið tillit til afskrifta, þ.e. ef einungis hefði verið beitt samræmingu sem lögin heimila --- sem ég tel eðlilega, ég vil taka það fram, að það sé samræmi í brunabótamati á sambærilegum eignum --- en afskriftirnar ekki verið heimilaðar. Þá hefðu aðeins 11.500 eignir breyst eða lækkað í brunabótamati meira en sem nemur afskriftahlutfalli, að meðaltali um 17% í stað 35 þús. eigna sem lækkuðu meira en afskriftahlutfallið að meðaltali og í þeim útreikningum lækka í mati í heild tæplega 42 þús. eignir í stað um 70 þús. eignir þegar tekið er tillit til afskrifta. Annars vegar er talað um það að brunabótamat breytist á 70 þús. eignum þegar tekið er tillit til afskriftanna en ef þeim er haldið utan við og einungis samræminganna gætt eru það um 42 þús. eignir. Það segir okkur vissulega að það var nauðsynlegt að fara út í þessa samræmingu en það er líka allt annar handleggur heldur en að beita þessum afskriftareglum.

Ég tel að það megi leiða að því líkur að stofnast geti til skaðabótaskyldu á hendur ríkinu ef eign er metin lægri en svarar til núvirðis hennar vegna lágs brunabótamats. Ég vil í því sambandi benda á að Fasteignamat ríkisins hefur með nokkurra mánaða millibili, eftir að lögin voru sett 1999, verið að hækka brunabótamatið og lækka síðan aftur um tugi prósentna, jafnvel á eignum sem aukist hafa að verðgildi vegna endurbóta. Það verður að ætla að stofnunin hafi lagt til grundvallar vátryggingarverðmæti eignarinnar þegar það hækkaði brunabótamatið en við ákvörðun brunabótamats ber Fasteignamati ríkisins einvörðungu að hafa að leiðarljósi þau markmið sem fram koma í lögum um brunatryggingar, ekki síst þegar skoðað er í því ljósi að brunabótamat er grundvöllur veðhæfni eigna og því líklegt að skert veðhæfni vegna lækkunar á brunabótamati geti rýrt verðgildi eignarinnar. Á tímabili fór Fasteignamat ríkisins raunverulega yfir á verksvið annars stjórnvalds sem ekki er heimilt og setti bráðabirgðareglur um brunabótamat íbúða vegna þess að brunabótamatið var grundvöllur að veðhæfni íbúða. Í minnisblaði Fasteignamats ríkisins til efh.- og viðskn. í júní sl. kemur eftirfarandi fram:

,,Í lögum um brunatryggingar er ekki vikið að hlutverki brunabótamats í sambandi við lánveitingar.``

Síðan er þar vísað til umfjöllunar Páls Hreinssonar í riti um stjórnsýslulög sem gefið var út af forsrn. 1994 þar sem hann fjallar um að sérhvert stjórnvald hafi ákveðinn og afmarkaðan verkahring og því beri að beita því stjórnsýsluvaldi sem það er samkvæmt lögum bært að fara með, með þau markmið fyrir augum sem því ber að vinna að lögum samkvæmt. Samkvæmt hinni skipulagslegu aðgreiningarreglu er stjórnvaldi óheimilt að leggja sjónarmið til grundvallar ákvörðunum sínum til að ná fram markmiði sem öðru stjórnvaldi ber að vinna að lögum samkvæmt. Stjórnvöld eiga að halda sig innan valdmarka sinna og vinna að þeim markmiðum sem þeim ber að vinna lögum samkvæmt en láta vera að skipta sér af málefnum sem heyra undir aðra og þau hafa ekki sérþekkingu á.

Af hverju er ég að vísa í þetta? Vegna þess að í afar mörgum tilvikum eftir að þessi lög voru sett 1999 hækkaði Fasteignamat ríkisins brunabótamat á mörgum eignum, ekki á grundvelli laga um brunatryggingar heldur vegna laga um húsnæðismál, af því að eftir því var kallað. Rökin voru að fasteignir hefðu hækkað svo í verði að lánin hefðu lækkað verulega og þess vegna þyrftu Fasteignamat ríkisins og brunatryggingar að koma á móti og hækka brunabótamatið, alveg óskylt brunatryggingu. Þegar þessar nýju reglur taka síðan gildi 2--3 árum síðar er þessi hækkun sem var forsenda margra kaupsamninga lækkuð um 30% aftur sem var kannski orðið rétt brunabótamat en hafði engu að síður lækkað um 30%, minnkað þar með veðhæfni eignarinnar, þannig að skuldir á eigninni voru orðnar miklu hærri heldur en eignaaukningin hafði orðið. Þetta tel ég að sé að fara illa með marga íbúðareigendur og það er þetta sem ég á við þegar ég tala um að það sé vel hugsanlegt að ríkið geti orðið skaðabótaskylt í slíkum tilvikum.

Ég tel líka að nýja matskerfið sem Fasteignamatið byggir á, og beitir nú við endurmat á brunabótamati, veki upp spurningar og ég nefni greinargerð sem forsvarsmenn Fasteignamats ríkisins skrifuðu í Morgunblaðið í september sl. þar sem fram kemur að á þenslutímum eins og ríkt hafi undanfarin ár sé brunabótamatið mjög háð því að byggingarvísitala endurspegli það sem hún á að endurspegla, þ.e. hlutfallslega breytingu á byggingarkostnaði milli tímabila. Ég fór fram á það við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins að hún svaraði ýmsum spurningum sem snerta einmitt byggingarvísitölu og samsetningu hennar. Í svari frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins kemur fram að þar sem byggingarkostnaður húsa sé breytilegur sé ekki talið æskilegt að nota verðvísitölu hússins sem viðmið á því hvað hús kostar almennt í byggingu á fermetra eða rúmmetra. Einnig kemur fram í svari frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins að þeir telja að verð á vísitöluhúsinu á fermetra eða rúmmetra endurspegli ekki byggingarkostnað húss almennt, t.d. vegna brunatjóns. Það er því mikilvægt að skoða hver þáttur byggingarvísitölunnar er í brunabótamatinu og hvort það skekki þá eitthvað brunabótamatið ef þessu er háttað eins og ég lýsti hér. Það er því afar mikilvægt að fara ofan í þann þátt.

Herra forseti. Það sem er alvarlegt í þessu, og það sem við flutningsmenn þessa frv. erum að reyna að taka á, er að tryggingaverð rýrnar verulega og það eru dæmi um allt að 50% lækkun á brunabótamati eftir að þessar afskriftareglur tóku gildi í septembermánuði. Það má draga í efa, herra forseti, að 20--50% skerðing á brunabótamati standist þá reglu vátryggingarréttar að tjónþoli verði jafnsettur fyrir og eftir brunatjón, einkum þegar um altjón er að ræða. Fjárhagsöryggi fasteignaeigenda er því sett í uppnám verði um brunatjón að ræða enda hafa tryggingafélögin viðurkennt að breytt brunabótamat geti leitt til þess að fólk fái minni bætur en sem nemur virði viðkomandi eignar.

Þetta kom fram, herra forseti, í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu og ég ætla að fá að vitna í það, herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta og vænti þess að ráðherrann hlýði á orð mín. Ég er að vitna í álit forsvarsmanna tryggingafélaganna sem kemur fram í Morgunblaðinu en þar segir orðrétt:

,,Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna tryggingafélaganna getur matið sem félögin leggja til grundvallar við tryggingar leitt til þess að fólk fái minni bætur en sem nemur virði viðkomandi eignar.``

Þetta er mat tryggingafélaganna. Þau telja að þetta geti leitt til þess að fólk fái minni bætur en sem nemur virði viðkomandi eignar. Það er líka athyglisvert að svo virðist sem afskriftareglunni sé ekki beitt í brunatjónum í nágrannalöndunum og ég bendi í því sambandi á nýlega samantekt um reglur um vátryggingafjárhæð í lögum sem prófessor Arnljótur Björnsson gerði fyrir viðskrn. en þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Frádráttur vegna aldurs og notkunar sem gera skal samkvæmt almennum reglum um vátryggingaverð kunna í ýmsum tilvikum að koma sér illa fyrir húseiganda. Aðstæður geta verið þannig að vátryggingabætur hrökkva ekki til að byggja upp svipaða húseign í stað þeirrar sem eyðilagst hefur. Þess vegna hafa vátryggingafélög víða um lönd alllengi haft á boðstólum svonefnda núvirðistryggingu. Í henni felst að í skilmálum brunatrygginga og ýmissa annarra vátryggingartaka eru ákvæði þess efnis að vátryggingabætur greiðast án frádráttur vegna aldurs og notkunar. Hins vegar skal taka tillit til verðrýrnunar vegna minnkaðs notagildis og annarra atvika. Núvirðisákvæði munu ekki þekkjast hér á landi í skilmálum fyrir brunatryggingar húsa.``

Jafnframt kemur fram í samantektinni að tryggingafélögin hér á landi greiða núvirðisbætur fyrir innbú og innanstokksmuni og hluti til persónulegra nota og er verðrýrnun vegna aldurs og notkunar því aðeins dregin frá verðinu að telja megi að notagildi hlutanna fyrir vátryggðan hafi minnkað verulega.

Þetta kemur líka fram í áliti lögmanna sem var gert 1997 fyrir Fasteignamat ríkisins. Þá er vitnað í danskan rétt og þar kemur fram að tryggingin bætir nýbyggingarverð húss án frádráttar vegna aldurs og slits. Hér er verið að vitna í danskan rétt eins og þetta er þar. Ég vitna líka í Arnljót Björnsson. Erlendis er þetta almennt þannig að það er ekki tekið tillit til frádráttar vegna aldurs og notkunar.

Ég tel, herra forseti, að þetta sé mjög alvarlegt ef það á að ganga fram. Ég tel líka að það sem menn eru að reyna að halda fram, að hér sé verið að fara fram á að bæta gamalt með nýju, standist bara ekki. Við getum tekið dæmi um eign sem er metin á 15 millj. og hún hafi lækkað niður í 7 millj. Segjum svo að það verði altjón og þessi íbúð brenni, kannski 5 herbergja íbúð --- fyrir 7 millj. er varla hægt að fá annað en tveggja til þriggja herbergja íbúð í staðinn og það er alveg ljóst að fólk er ekki jafnsett fyrir og eftir tjón þegar þannig er haldið á málum.

Ég vil í því sambandi vitna í formann Húseigendafélagsins, Sigurð H. Guðjónsson, en hann segir einmitt um þetta atriði:

,,Þegar um hús er að ræða kemur eitthvað annað til sem er erfitt að festa hendur á sem tryggingaleg verðmæti. Ef hús fjölskyldu brennur missir hún heimili sitt og stendur á götunni og þarf að koma sér upp nýju heimili þrátt fyrir allar fyrningar. Spurningin er hvort fjölskyldan eigi að byggja sér hálft hús eða bara einhvern skúr. Fólk vill að tryggingin sé þannig að það sé statt í sömu sporum og fyrir brunann en það verður það ekki nema það geti fengið sér sambærilegt hús. Sem dæmi má nefna að fólk sem býr í húsum sem eru jafnvel svo gömul að þau eru friðuð fær afskaplega lítið út úr brunatryggingum þrátt fyrir að húsinu hafi verið listilega vel við haldið og sé feikiverðmætt. Ég tel að endurskoða þurfi fyrningarreglurnar því að þeir hagsmunir sem fólk þarf að hafa á hreinu við bruna eru fyrir borð bornir núna.``

[12:15]

Þetta segir formaður Húseigendafélagsins um þessar fyrningar og tekur undir þau sjónarmið sem ég og aðrir hafa haldið fram að hér er mjög óeðlilega staðið að með þeirri fyrningarreglu sem nú á að beita.

Ég vil líka spyrja ráðherrann um þær viðbótartryggingar sem trygginafélögin eru að bjóða í því gapi sem hér hefur myndast og þeirri minni tryggingarvernd sem blasir við húseigendum. Ég tel að það þurfi sérstakrar skoðunar við að tryggingafélög treysta sér til að bjóða fólki viðbótartryggingar sem svarar til mismunarins á gamla og nýja brunabótamatinu í kjölfar breytinga nú á brunabótamatinu. Af því verður varla annað ráðið en að tryggingafélögin telji að gamla brunabótamatið hafi verið eðlilegt og endurspegli raunverulegt vátryggingarverðmæti eignarinnar. Annars er verið að bjóða tryggingar umfram raunverulegt verðmæti fasteigna og má í því sambandi nefna að í skýrslu sem Fasteignamat ríkisins gaf út í september sl., sem ber heitið Brunabótamat -- Afskriftir, þá kemur eftirfarandi fram, og um þetta vil ég spyrja hæstv. ráðherra og les upp úr skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Sjónarmiðið í lögunum er að brunatryggingin sé til hagsbóta fyrir eiganda. Vátryggingarfjárhæðin er upphæð brunabótamats sem húseigendur og tryggingafélög eru bundin við, þannig að ekki er unnt að tryggja húseignir fyrir hærri eða lægri fjárhæðir.``

Gefum okkur að þetta sé rétt, að afskriftir og brunabótamat sé þá rétt miðað við það að taka tillit til aldurs og slits og þar af leiðandi afskrifta, hvernig geta þá, miðað við þetta sjónarmið sem hér kemur fram, tryggingafélögin verið að bjóða fólki viðbótartryggingar, mismun á nýju brunabótamati og því gamla? Eru þau ekki að nýta sér þetta bara til þess að hala meiri peninga inn til sín af fólki? Þetta finnst mér nokkuð alvarlegt og þessu finnst mér hæstv. ráðherra verði að svara. Tekið er fram í skýrslunni frá Fasteignamatinu að: ,,Vátryggingarfjárhæðin er upphæð brunabótamats sem húseigendur og tryggingafélög eru bundin við, þannig að ekki er unnt að tryggja húseignir fyrir hærri eða lægri fjárhæðir.``

Þetta finnst mér að þurfi að skoða og ég held að tryggingafélögin séu að koma inn í þetta óeðlilega umhverfi sem er orðið varðandi tryggingarvernd á húseignum til þess að afla sér viðbótarfjár af húseigendum, sem eðlis máls samkvæmt hefðu átt að vera tryggðir án þess að afskriftareglum væri breytt, ef ekki hefðu verið gerð þau mistök sem gerð voru á þinginu á árinu 1999.

Eins og fram kemur í frv., herra forseti, tökum við flutningsmenn undir að það hafi verið tilefni til að samræma brunabótamat á hliðstæðum eignum sem að hluta til má rekja til fyrri verklagsreglna Fasteignamats ríkisins, ekki síst bráðabirgðareglna sem gefnar voru út á haustdögum 1999, sem voru óeðlilegar, herra forseti, að þannig skyldi staðið að máli af hálfu Fasteignamats ríkisins sem hefur komið mörgum íbúðarkaupendum afar illa og ég held að þeim dæmum sem út úr því komi megi hreinlega líkja við eignaupptöku, þegar verið er að lækka brunabótamat á eign um kannski 30--40% nokkrum mánuðum eftir að Fasteignamat ríkisins hækkaði það. Kaupendur gerðu sín kaup á grundvelli þessa brunabótamats en síðan er það lækkað. Þarna var mjög óeðlilega að verki staðið.

Við teljum einnig að það megi rekja nokkurt ósamræmi í brunabótamati eigna, bæði á milli eigna og innan sveitarfélaga, til þess að áður var matið ákvarðað af dómkvöddum matsmönnum hvers sveitarfélags, og ekki voru til staðar samræmdar verklagsreglur. Samræming á matinu án afskrifta ætti því að nægja til þess að fá fram rétt og eðlilegt mat sem tryggi vátryggingarverðmæti eignanna, sem miða á við núvirðistryggingu, þannig að fasteignaeigendur verði örugglega eins settir fyrir og eftir brunatjón. Það standa því öll rök til þess, herra forseti, að Alþingi endurskoði ákvörðun sína frá árinu 1999 nú þegar ljósar eru alvarlegar afleiðingar hennar sem Alþingi fjallaði ekki um eða tók afstöðu til þegar lögin voru samþykkt.

Þetta ástand hefur skapað mikið óöryggi hjá fasteignaeigendum, bæði að því er varðar tjón vegna bruna og veðhæfni eigna og það eru engin efnisleg rök til þess að hafa brunabótamatið með því fyrirkomulagi að heimila afskriftir, enda virðist ávinningurinn af því einungis vera hjá tryggingafélögunum eins og ég hef hér lýst.

Einnig ber að líta til þess að brunatrygging húseignar er skyldutrygging þar sem fasteignaeigendur hafa ekkert val. Hér er því um hluta af velferðarkerfinu að ræða sem byggir á öryggi þegnanna, m.a. vegna áfalla af ýmsum toga. Flutningsmenn leggja áherslu á að um málið náist víðtæk samstaða og leitað verði allra leiða til þess að vátryggingarverðmæti eigna tryggi betur en nýja brunabótamatið gerir eignir fólks.

Ef það mætti verða til sátta og víðtækrar samstöðu hér á þinginu, þá getum við í frv. annarrar leiðar en frv. þetta kveður á um sem rétt væri að efh.- og viðskn., sem fær málið til meðferðar, skoðaði ef um hana gæti þá náðst víðtækari sátt en um þá leið sem hér er lögð til. Matið gæti hugsanlega þá verið tvíþætt, annars vegar að matið miðaðist við það þegar húseign verður tilbúin undir tréverk og á því byggingarstigi taki til efnislegra verðmæta húseignarinnar og byggingarkostnaðar, án tillits til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti, þannig að afskriftum verði ekki beitt varðandi endurbyggingu á húseign þar sem um brunatjón er að ræða fyrr en eftir að íbúðin er tilbúin undir tréverk. Hinn þátturinn væri sá að matið miðaðist við þau efnislegu verðmæti húseignarinnar eftir að því byggingarstigi, þ.e. tilbúið undir tréverk, er náð, sem eyðilagst gæti af eldi og miðast þá við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Eignaaukning vegna innréttinga og gólfefna sem sérstaklega er við haldið og leiðir til eignaaukningar væri síðan alltaf hægt að fá metið þá sérstaklega.

Herra forseti. Ég held að enginn deili um það að ef fólk missir eigur sínar að hluta eða fullu í bruna er um alvarlegt fjárhagstjón að ræða sem ekki verður bætt ef dregið er úr tryggingarvernd þannig að fólk verði ekki jafnsett fyrir og eftir slíkt áfall. Það er einmitt tilgangur þessa frv. að tryggja það, herra forseti, og ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.