Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:32:17 (1346)

2001-11-08 12:32:17# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að. Auk okkar eiga hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson aðild að frv.

Það deilir enginn um að fólk sem missir eigur sínar í bruna verður fyrir miklu tjóni. Það verður fyrir tilfinningalegu tjóni og það verður fyrir fjárhagstjóni. Þess vegna er mjög mikilvægt að brunatryggingar séu traustar, að fólk njóti raunverulegrar tryggingaverndar. Talsmenn tryggingafélaganna hafa sagt að það sem hafi gerst með breytingum sem gerðar hafa verið á lögum og reglum sem um þessi mál gilda hafi einfaldlega verið að færa iðgjaldsstofn brunatrygginga til samræmis við útborgaðar greiðslur tryggingafélaganna vegna tjóns, að menn hafi einfaldlega verið að færa iðgjaldsstofninn til samræmis við útgreiddar tryggingar og það í sjálfu sér komi húseigendum til góða vegna þess að þeir séu þá að fá lækkun á þessum tryggingagjöldum.

Það gerist hins vegar við þessa umræðu, sem hæstv. viðskrh. virðist ekki hafa kynnt sér en er bara þungamiðjan í þessari umræðu í sumar og í haust, að við þessar breytingar hafa tryggingafélögin boðið upp á viðbótartryggingar. Við höfum gengið eftir því í efh.- og viðskn. þingsins þegar þessi mál hefur borið á góma hvað það sé sem þá eigi að tryggja. Á að tryggja raunverulega eign íbúðar eða húss sem hefur brunnið eða eitthvað annað? Á að tryggja einhver tilfinningaleg verðmæti eða á að tryggja raunverulega eign? Svörin hafa verið afskaplega loðin.

Okkur hefur þó verið sagt að um sé að ræða tryggingu á raunverulegri eign. Þá segir maður: Ef svo er hljóta afskriftareglurnar að vera rangar. Ef tryggingafélögin eru annars vegar að segja að eignin sé að fullu tryggð miðað við eðlilegar afskriftir hennar og í sama orðinu er boðið upp á viðbótartryggingu fyrir þessari sömu eign þá hljóta þessar afskriftareglur að vera rangar. Um þetta hefur þessi deila að verulegu leyti staðið. Það sem við erum að gera með þessu frv. er að taka af öll tvímæli um að heimili fólks, íbúðir, eigi ekki að afskrifa, enda er heimili manns manni ekki markaðsvara fyrst og fremst heldur er það heimili. Og ef það brennur þarf maður væntanlega annað heimili og það á við um ný heimili og gömul heimili. Við viljum láta þær reglur gilda að þessi eign, heimili fólks, séu ekki afskrifuð þegar kemur til brunatrygginga. Út á það gengur frv. okkar.

Við höfum, eins og fram kom í máli 1. flm. frv., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, einnig boðið upp á hugsanlega samkomulagsleið, eins konar millilendingu. Hún gengur út á það að húsið sjálft tilbúið undir tréverk, íbúðin sjálf, heimilið sjálft tilbúið undir tréverk, lúti ekki neinum afskriftum, en það sem er þar innan stokks, tréverkið og það sem sett er inn í þennan kassa mundi lúta afskriftareglum. Þetta er sáttaleið sem við viljum að efh.- og viðskn. gaumgæfi, þ.e. að farin verði þarna ákveðin millileið. En ég furða mig á þessari yfirlýsingu hæstv. viðskrh. sem virðist ekki hafa kynnt sér þá umræðu sem fram hefur farið síðsumars og í haust um viðbótartryggingu tryggingafélaganna þar sem spurt hefur verið um hvað felist í henni. Og þegar því er svarað til að þar sé boðið upp á tryggingu á raunverulegri eign þá spyrjum við: Ef það er raunveruleg eign af hverju er hún þá ekki inni í skyldutryggingunni? Hvernig stendur á því? Við höfum ekki fengið nein svör við þessu.

Ég tel að hér sé á ferðinni mikið þjóðþrifamál og geysilegt hagsmunamál fyrir almenning í landinu, fyrir íbúðaeigendur sem þurfa að njóta traustrar verndar fyrir heimili sín.