Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:57:43 (1349)

2001-11-08 12:57:43# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kalla þetta að berja höfðinu við steininn. Mér finnst skelfilegt að hlusta á þetta.

Fyrir skömmu átti hæstv. viðskrh. orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og kenndi þingmanninum um að hafa verið með þvílíkan æsing þegar nýja matið kom fram, að hún hefði hrætt fólk upp úr skónum, að það hefði verið ástæðulaust og það væri þingmanninum að kenna hvaða staða hafi komið upp þegar fólk var í örvæntingu að skoða seðlana sína og hringja í Fasteignamatið þannig að ekki náðist í nokkurn mann þar. Það var hægt að reyna það dögum saman.

Nú kemur hæstv. ráðherra sem betur fer og segir: Það þurfti að gera breytingar á lögunum. Það er verið að gera og Fasteignamatið mun skoða þetta. Ég geri mér grein fyrir því að það þurfti að lagfæra. Bara þetta skiptir að vísu máli. Það er enginn að biðja um að sá sem á hús sem hefur látið á sjá, orðið lúið og kannski misst eitthvað verðgildi, fái splunkunýtt hús sem sé einhverjum milljónum verðmætara. Fólk er að tala um það að fá sambærilegt virði þess sem glatast.

Ef ráðherrann kemur hér aftur og aftur og telur eðlilegt að t.d. 160--170 fermetra vel viðhaldið hús sem lítur út eins og nýtt, að innan og utan, með nýjum innréttingum, á stórri lóð, fari það forgörðum í eldi, sé bætt með verðmæti þriggja til fjögurra herbergja íbúðar í blokk, þá erum við ekki á sama stað á plánetunni. Við erum ekki með sömu lífssýn. Við erum ekki með sama mat á því hvernig eigi að virða eignarrétt fólks og gera fólki kleift að halda verðmæti lífsstarfs síns. Um það snýst það að fólk haldi nokkurn veginn verðmæti lífsstarfsins og sé byggt nýtt, þó það sé við gamalt, þá sé a.m.k. litið á það sem nýtt.