Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:01:44 (1351)

2001-11-08 13:01:44# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðarnir eru aftur og aftur búnir að segja að við sem höfum gagnrýnt framkvæmd þessara laga, lagabreytinguna og það sem hún dró á eftir sér, viljum fá meira verðmæti en við áttum. Þeir kalla það nýtt fyrir gamalt en það þýðir, þegar maður ræðir við þá, þið viljið fá meira eftir á en þið áttuð. Það er það sem við erum að breyta. Við ætlum ekki að græða á brunanum. Við viljum bara fá heimilið okkar aftur. Um það snýst málið. Og athyglin beindist að framkvæmd fyrninganna, einmitt þegar þetta nýja mat kom og fólk stóð frammi fyrir því sem hafði verið að gerast.

Ég ætla að benda hæstv. ráðherra á að félmrh. sagði hér í blaðagrein að fyrning eigna væri óeðlilega há og að fyrningarákvæðið væri allt of strangt og það hefði komið í ljós að niðurskrift eigna væri óeðlilega há. (JóhS: Þetta er flokksbróðir hennar.) Og brunabótamat eigi að endurspegla sannvirði eignarinnar. Og það er verið að segja ráðherranum og stjórnarmeirihlutanum aftur og aftur að lögin sem þau berjast við að réttlæta og sem voru sett af því að taka þurfti á brunatryggingamálum ónotaðra útihúsa í sveitum og varð að breytingum á verðgildi og mati á húsi hjá mér og honum og öðrum þingmönnum --- það er engin leið að fá stjórnarmeirihlutann og hæstv. ráðherra til að skilja um hvað málið snýst. Og ég harma það.

Ég vona og treysti því að það finnist svo margt af vel gerðu fólki hér inni á hv. Alþingi að efh.- og viðskn. komist, við umfjöllun þessa frv., að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að lagfæra það sem glatast hefur.