Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:44:28 (1388)

2001-11-08 16:44:28# 127. lþ. 25.8 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eru hagkvæmustu aðgerðir gegn sjúkdómum í öllu tilliti. Leitar- og forvarnastarf Krabbameinsfélags Íslands og samstarfsaðila þess hafa sannað á ótvíræðan hátt þá fullyrðingu sem ég hóf mál mitt á. Áhugamenn um almenna og skipulega leit að krabbameini hafa kannað möguleika á því að meta þjóðfélagsleg áhrif hennar, þ.e að meðhöndla forstig krabbameins.

Þessi þáltill. fjallar um að hefja í framtíðinni skipulagða leit og reglubundið forvarnastarf með krabbameinsleit í líffærum og líkamshlutum fólks til að koma í veg fyrir veikindi og þjáningar einstaklinga að því leyti sem mögulegt er með forvarnaaðgerðum.

Herra forseti. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason hefur sem 1. flm. lagt fram gífurlega vinnu við undirbúning þessa máls sem ég tel vera mjög vandað. Ég er hreykinn af því að vera meðflutningsmaður á þeirri tillögu og kem hér fyrst og fremst upp til þess að lýsa yfir stuðningi og láta í ljós aðdáun fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í þetta verk sem ég tel að sé, eins og ég sagði áðan, sérstaklega vel vandað. Ég hvet því, herra forseti, eindregið til þess að þáltill. verði afgreidd eins og hún er orðuð á þessum vetri af hv. heilbr.- og trn. og hinu háa Alþingi.