Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:46:33 (1389)

2001-11-08 16:46:33# 127. lþ. 25.8 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við sem hér blöndum okkur í umræðu um þessa tillögu, sem Árni R. Árnason er fyrsti flutningsmaður að og málshefjandi í þessari umræðu, erum öll meðflutningsmenn að tillögunni og viljum að forvarnir verði auknar varðandi krabbamein í meltingarvegi og sjúkdóma þeim tengdum og erum hérna að styðja við að hrint verði í framkvæmd mjög víðtæku forvarna- og leitarstarfi á þessu sviði.

Það er alveg ljóst að heilbrigðisþjónustan hlýtur í auknum mæli í framtíðinni að byggja á forvarnastarfi og skipulagðri leitarstarfsemi hvað varðar þessa erfiðu sjúkdóma, og dýru fyrir samfélagið, og átakasömu fyrir þá einstaklinga sem í því lenda að veikjast af þeim. Þess vegna er þessi þáltill. afskaplega þýðingarmikil. Hún er þýðingarmikil frá sjónarhóli einstaklingsins vegna þess að verði tekið vel á í þessu máli er unnt að bregðast við einkennum og sjúkdómum í meltingarvegi á frumstigi, það eru meiri líkur á lækningu og við getum e.t.v. með slíkri starfsemi afstýrt alvarlegum sjúkdómum og því að sjúkdómurinn nái sér á skrið.

Það er enginn vafi á því að það er þjóðhagslega hagkvæmara að veita fjármagn, og þess vegna mikið fjármagn, til forvarna og fyrirbyggjandi rannsókna sem draga úr þörf á dýrari aðgerðum og dýrum úrræðum síðar ef sjúkdómur af þessu tagi nær sér á strik og veldur því alvarlega ástandi hjá einstaklingum og í heilbrigðiskerfinu sem við þekkjum.

Þess vegna vildi ég styðja þetta mál, og ekki síst vegna þess að ég þekki, eins og aðrar konur, hversu dýrmætt forvarna- og leitarstarf vegna krabbameins kvenna í leghálsi og brjóstum hefur verið og hvað það hefur haft mikla þýðingu fyrir konur að boðið hefur verið upp á þessa leit. Það er mjög athyglisvert sem kemur fram hér í greinargerð, að skipuleg leit að leghálskrabbameini í konum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur nú staðið um nærri 40 ára skeið og á þessum tíma og fram á síðasta áratug féll nýgengi sjúkdómsins um 67% og dánartíðni um 76%. Í raun og veru er þetta þvílíkur vitnisburður um heilbrigðisþjónustuna að það væri nærri því nóg að hafa bara þessar setningar í greinargerð.

Skipuleg leit að brjóstakrabbameini er hins vegar nýrri af nálinni og hefur breyst frá 1987 í að fara fram með röntgenmyndatöku. Það er ekki alveg jafnmikil þátttaka í þeirri leit, því miður, og jafngóðar niðurstöður af þessu forvarnastarfi hafa ekki orðið eins og ástæða hefði verið til miðað við reynsluna af leit að krabbameini í leghálsi.

Það er þess vegna mjög mikilvægt að samhliða skipulegu leitar- og forvarnastarfi verði mikið fræðsluátak með því, eins og hér er lagt til, að efla og auka þekkingu og vitund almennings, efla þekkingu starfsmanna á sjúkdómunum og koma á heildrænum gagnagrunni allra sjúkdómseinkenna eins og framsögumaður leggur til hér í yfirliti. Þar legg ég mikla áherslu á fræðsluþáttinn. Það er ekki nóg að þetta sé fyrir hendi ef fólkið kemur ekki. Þess vegna þarf þessi starfsemi að verða jafnsjálfsögð og leitarstarfið til að tryggt sé að fólk komi.

Ég er alveg sannfærð um, þó að það þekkist ekki með einhverjum sérstökum og sértækum rannsóknaniðurstöðum, að þessir sjúkdómar liggja kannski fremur í ákveðnum fjölskyldum --- og þar með nikkar málshefjandi og veit betur en ég --- ég hef verið sannfærð um það að alveg eins og gigtarsjúkdómarnir, sem er önnur tegund af sjúkdómum sem leggjast á ónæmiskerfið, leggjast þessir í ættir. Þá er mjög mikilvægt að fólk í slíkum ættum leggi kannski meiri áherslu á að nýta sér leitarstarf og slíkar rannsóknir en aðrir. Fræðsla þarf að vera víðtæk um til hverra þarf að ná, og mikilvægt er að slík leit verði mjög virk.

Þetta er afar gott mál og vel unnið með ítarlegri og góðri greinargerð sem er mjög sannfærandi. Meðal annars er greint frá ritgerð sem birtist í Læknablaðinu snemma þessa árs og hún fjallar einmitt um nýgengi ristilkrabbameina sem hefur farið fjölgandi meðal þjóða sem búa við almenna velmegun. Þar kemur enn fremur fram að samkvæmt krabbameinsskrá hjá Íslendingum hefur nýgengi, á því rannsóknartímabili sem er til hjá okkur, þrefaldast meðal karla og tvöfaldast meðal kvenna. Hér er einmitt bent á það að meðan við konur höfum átt kost á forvarna- og leitarstarfi þar sem mest tíðni hefur verið á krabbameinum hjá konum, eins og í leghálsi og brjóstum, hafa mannskæðustu krabbameinin hjá körlum ekki verið tekin fyrir með sama hætti og boðið upp á virkt leitarstarf.

Þess vegna styð ég þetta mál og ég er alveg sannfærð um, þó að það sé ekki auðvelt að ná tillögum og frumvörpum þingmanna fram, að þetta mál er þess eðlis og stuðningurinn við það svo víðtækur hér á Alþingi að það muni ná fram að ganga, herra forseti.