Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:54:29 (1390)

2001-11-08 16:54:29# 127. lþ. 25.8 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál., Flm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls í umræðu um þessa þáltill. og undirtektir þeirra við tillöguna og sérstaklega þá athygli sem þeir hafa veitt þeim upplýsingum sem koma fram í greinargerð með henni. Það er rétt að hnykkja örlítið á þessum upplýsingum því að þær eru allar þess efnis að þær staðfesta eina setningu sem kemur fram í greinargerðinni. Þessar upplýsingar leiða til þeirrar ályktunar að þessir sjúkdómar eru meðal algengustu krabbameinssjúkdóma hjá vestrænum þjóðum og þróuðum þjóðum heims.

Það kemur líka fram annars staðar í greinargerðinni að nýgengi, þ.e. tíðni nýrra tilfella þessara sjúkdóma meðal Íslendinga, er tiltölulega hátt, með því hæsta á Norðurlöndum, og tíðnin á Norðurlöndum nema í Finnlandi er með því hæsta í veröldinni.

Vegna þess að hv. þm. hafa nefnt mig sérstaklega til sögunnar vil ég leyfa mér að nefna annan hv. þm. sem hefur lagt til mikið efni, Ástu Möller. En utan þingmanna sem hafa komið að málinu vil ég sérstaklega nefna Ásgeir Theodórs, sérfræðing á sviði sjúkdóma í meltingarvegi. Hins vegar vil ég taka fram að mjög margar athuganir benda til þess að það sé tiltekið ættgengi sem snertir framgang þessara sjúkdóma, a.m.k. næmi, og það er alveg ljóst af athugunum sérfræðinga að fyrstu atriði í skilgreiningu áhættuhópa eru skyldleiki við sjúklinga sem þegar hafa verið greindir.

Það er rétt að nefna einnig tvö atriði sem varða framgang þessa máls. Í greinargerðinni er nefnt starf nefndar einnar á vegum landlæknis, svonefndrar skimunarnefndar. Sú nefnd mun vera u.þ.b. að ljúka sínu starfi og leggja tillögur sínar fyrir landlækni. Þær tillögur munu verða mjög veigamiklar varðandi rannsóknir á fyrstu einkennum, jafnvel um það að finna einkenni sem fólk áttar sig ekki fyllilega á sjálft. Hitt atriðið er mál sem hefur alloft komið fyrir hv. þingmenn, sérstaklega í hv. fjárln. Alþingis, og er nefnt ,,polypaskrá``. Í henni er skráning einkenna sem læknar verða varir við, ekki ævinlega vegna krabbameina en mikill grunur leikur á hjá fleiri en einni sérfræðigrein læknisfræðinnar að þau séu einkenni um forstig þessara sjúkdóma. Jákvæð einkenni, einkenni jákvæðra frumubreytinga, en nokkrar sérfræðigreinar læknisfræðinnar telja að þessir polypar séu meðal þess sem geta orðið krabbamein síðar á ævinni.

Það er öllum sem um fjalla alveg ljóst að til að fara af stað með verkefni af því tagi sem hér er lagt til þarf bæði fjármuni og fyrirhöfn en ekki síst þarf þekkingu í hópi þeirra sem verkefnið framkvæma. Við vitum að þekkingin er fyrir hendi, við þykjumst vita að fjármunirnir geti orðið fyrir hendi þegar viljinn verður, og þá verður starfsfólkið einnig til staðar. Það er alveg ljóst að þessir sjúkdómar sem við ræðum hér eru svipaðrar tegundar eða hafa svipuð einkenni og þeir sem nefndir voru varðandi Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Þar hefur náðst glæstur árangur og sýnir að við gætum náð feikimiklum árangri.

Ríkið Þýskaland hefur mjög nýlega sett sér eitt markmið meðal annarra, eitt sem snertir svona sjúkdóma meðal Þjóðverja, og það er að lækka dánartíðni um 50% á næstu fimm árum. Við höfum ekkert slíkt markmið varðandi þessa sjúkdóma. Það ættum við að setja okkur og vinna í samræmi við það.

Ég tel að það sé alveg ljóst af þeim upplýsingum sem við höfum hver um annan, Íslendingar, um þjóðarmengið, að við getum stundað hér leit og forvarnir gegn þessum sjúkdómum, og raunar mörgum öðrum, með mjög góðum árangri. Við höfum mjög góða og sérfróða lækna og annað samstarfsfólk þeirra. En eftir frumkvæði héðan bíða þeir og allt þeirra samstarfsfólk, ekki einungis þeir heldur líka sjúklingar sem vita að fólkið í þeirra húsum er í áhættuhópnum. Ég held að það sé fólkið sem við ættum að hafa mest í huga.

Það hefur lengi verið sagt að það sé hlutverk leiðtoga og annarra forustumanna að byrja, að breyta og að stöðva. Það merkir í einu orði að hafa frumkvæði. Ég tel að hv. Alþingi geri mjög vel með því að hafa frumkvæði að þessu máli.