Farþegaflutningar til og frá Íslandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:05:50 (1515)

2001-11-14 14:05:50# 127. lþ. 29.3 fundur 181. mál: #A farþegaflutningar til og frá Íslandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda að við eigum auðvitað mjög mikið undir því að samgöngur séu greiðar og greiðar flutningaleiðir að og frá landinu, bæði á sjó og eins með fluginu.

Eins og ég gat um í svari mínu er sú þjónusta hvað varðar flugið mjög mikil og góð sem betur fer, tíðar flugferðir á milli, bæði til Evrópu og vestur um haf. Þessu hefur verið þjónað alveg einstaklega vel gagnvart okkur Íslendingum. Enda hefur ferðaþjónustan byggt mjög mikið á þessum tíðu flugferðum og vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu hefur ekki síst orðið eins og hann hefur verið síðustu árin vegna þessara tíðu ferða.

Eins og fram kom er verið er að byggja stóra og mikla ferju sem á að sigla til Seyðisfjarðar og við erum að undirbúa feiknalega mikla fjárfestingu í hafnaraðstöðu og akstursleiðum að ferjuhöfninni í Seyðisfirði til að geta tekið á móti því stóra og afkastamikla skipi.

(Forseti (ÍGP): Forseti biður hv. þm. um að gefa betra hljóð í salnum.)

Það er því auðvitað í okkar þágu og ekki síst í þágu Seyðisfjarðarhafnar og þeirra sem munu fjárfesta í þeirri höfn að hún nýtist sem mest og best og siglingatíminn verði sem flestar vikur á hverju ári. Ég á von á því að þeir sem reka þá ferju muni leggja á ráðin með að nýta hana sem best og ná farþegum um borð svo þeir geti siglt til og frá Íslandi sem flesta daga á árinu. En eins og er þá er ekki gert ráð fyrir miklu lengri tíma en nú er. (Forseti hringir.) En koma tímar og koma ráð. Samgöngur við landið eru í góðu horfi eins og er.