Lagning ljósleiðara

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 14:18:40 (1520)

2001-11-14 14:18:40# 127. lþ. 29.4 fundur 249. mál: #A lagning ljósleiðara# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. lét að því liggja að lagning ljósleiðarans út um land mundi ráðast af því hversu arðsamt eða hagkvæmt það væri, hvort það skaffaði tekjur til þess að standa undir því.

Ljóst er að með sölu Landssímans, ef af verður, færist sú kvöð á ríkisvaldið að styrkja eða greiða fyrir lagningu fjarskiptanetsins um þær byggðir landsins þar sem það reynist ekki arðsamt fyrir það fyrirtæki sem veitir þessa þjónustu.

Það er vafalaust alveg hárrétt að á höfuðborgarsvæðinu og í stærstu þéttbýliskjörnunum mun líklega verða samkeppni þó engan veginn sé tryggt að þar verði samkeppni um að leggja ljósleiðara og fjarskiptanet þannig að það þjóni nýjustu kröfum og tækni á hverjum tíma. Ég óttast, herra forseti, að sala Landssímans, ef af henni verður, verði til þess að rýra kjör úti um landið.