Nýir framhaldsskólar

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 15:04:51 (1542)

2001-11-14 15:04:51# 127. lþ. 29.6 fundur 245. mál: #A nýir framhaldsskólar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Öflugt menntakerfi sem nær til allra landsmanna er forsenda velferðar og hagvaxtar og framboð menntunar leggur grunn að samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu á hverjum stað. Það er mikil blóðtaka fyrir hvert byggðarlag að senda allt ungt fólk burt til menntunar frá 16 ára aldri og verður æ erfiðara eftir því sem skólaárið lengist. Fjarveran eykst og fjölskyldubönd og rætur í heimahögum slitna. Það reynir mjög á ungt fólk á þessum árum og það er hluti góðra lífskjara að fjölskyldan geti veitt hvatningu og stuðning unglingum í námi. Aukið námsframboð í heimabyggð styrkir sjálfsímynd byggðarinnar og hefur feikileg margfeldisáhrif í nærsamfélaginu.

Framfarir í fjarskiptatækni bjóða upp á fjölbreyttan stuðning í öllu menntunarstarfi og hæstv. menntmrh. hefur nefnt hugmyndir um dreifnám sem tæki til einmitt þessara aðstæðna og nýtti sér möguleika nútímafjarskiptatækni í að efla nám sem víðast um landið.

Herra forseti. Hvert samfélag, hver byggð þarf stöðugt að sækja fram hvað menntun varðar og hér styður hvert menntunarstig annað. Því öflugri grunnmenntun sem er í byggðarlaginu þeim mun meiri möguleikar eru á framboði í símenntun, endurmenntun og háskólamenntun. Það er því eðlilegt að þau sveitarfélög sem ekki hafa framhaldsskóla leiti eftir og kanni möguleika á að koma á slíku námi í heimabyggð.

Forsvarsmenn sveitarfélaganna í Ólafsfirði og í Dalvík og á utanverðu Snæfellsnesi, þ.e. í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, hafa kynnt fyrir þingmönnum hugmyndir sínar og óskir um stofnun eigin framhaldsskóla með daglegri heimangöngu nemenda. Þar hefur verið greint frá því að viðræður stæðu yfir við menntmrn. um stofnun slíks skóla í viðkomandi byggðum.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:

1. Hvenær er að vænta niðurstöðu í viðræðum milli menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna í Ólafsfirði og Dalvíkurbyggð um stofnun 2--4 ára framhaldsskóla á svæðinu?

2. Hvenær er að vænta niðurstöðu í viðræðum milli menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi um stofnun framhaldsskóla á svæðinu?