Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:32:09 (1586)

2001-11-15 10:32:09# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Nýverið mátti lesa frétt í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni ,,Hver vitjun á heimili kostar 4--5 þúsund kr.`` Var tilefnið það að heimilislæknir í borginni hefur auglýst einkaþjónustu þar sem hann býðst til að koma á heimili sjúklinga ef þeir óska þess. Þjónustan er alfarið fyrir utan sjúkratryggingakerfið. Þjónustusvæðið er allt höfuðborgarsvæðið og segir læknirinn að mikill áhugi sé meðal kollega hans á að bjóða upp á þjónustu af þessu tagi.

Í ágúst sl. var önnur frétt í sama blaði undir yfirskriftinni ,,Þörf á að fjölga heimilislæknum`` en þar var greint frá því að læknir nokkur hefði hug á að koma á fót einkarekinni heilsugæslustöð. Þar kemur fram að þúsundir manna séu án heimilislæknis í Reykjavík og er staðfest í viðtali við Lúðvík Ólafsson, héraðslækni í Reykjavík, að heilsugæslan þar sem samkvæmt lögum á að veita þessa þjónustu sé í vanda. Hún hafi illa getað sinnt hlutverki sínu vegna skorts á fjármagni og að fjölga þurfi læknum innan hennar. Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni í Reykjavík vantar á bilinu 30--50 millj. í rekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu til að halda úti óbreyttum rekstri en um 100 millj. til að koma til móts við þá þörf sem til staðar er á svæðinu. Stærstu vandamálin eru, að sögn, heilsugæslustöðvarnar í Grafarvogi, Breiðholti og Kópavogi og sér ekki fyrir endann á þeim vanda.

Með lögum um heilbrigðisþjónustu var tekin upp sú stefna að byggja upp heilsugæslustöðvar til að sinna heilsuverndarstarfi og því lækningastarfi sem unnið er vegna heilbrigðra og sjúkra sem ekki dveljast á sjúkrahúsum. Má segja að þetta hafi tekist nokkuð bærilega annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu en þar hefur kerfið ekki virkað sem skyldi í öllum hverfum, ekki hefur tekist að þjóna eftirspurninni.

Því hefur auk þess verið haldið fram að núverandi skipulag og staða heilsugæslunnar hreki nýútskrifaða lækna frá faginu. Aukinn áhugi á því að bjóða þjónustu án þátttöku almannatrygginga er án vafa sprottinn af þessari óánægju og þeirri staðreynd að heilsugæslunni er ekki gert kleift að þjóna þörfinni.

Herra forseti. Ljóst er að kjaramál lækna hafa löngum haft mikil áhrif á þróun mála í heilbrigðiskerfinu. Auk þess eru kjörin og það hvernig samið er um þau ríkur þáttur í því hvernig gengur að halda útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála í skefjum. Ég vil því fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrrh. skuli nú hafa lagt fram frv. þar sem lagt er til að samningamál lækna séu á einni hendi. En um leið vil ég lýsa áhyggjum mínum af þeirri þróun sem er að eiga sér stað á meðal heimilislækna, og m.a. gæti orsakast af þeirri óánægju sem hefur orðið vart með starfsskilyrði heilsugæslunnar og að einhverju leyti með launakerfið sem slíkt. Ég hlýt því að spyrja hæstv. heilbrrh. hvernig hann hyggist bregðast við þeim tíðindum sem áður voru rakin.

Herra forseti. Heilbrigðiskerfið, framtíð þess og fjármögnun hefur lengi verið pólitískt þrætuepli hér á landi enda stærsti póstur í útgjöldum ríkisins í velferðarþjóðfélaginu. Ég hef nokkrum sinnum úr þessum ræðustóli spurt fyrrv. hæstv. heilbrrh. hvaða afstöðu hún hefði til einkavæðingarhugmynda sem margsinnis hafa komið fram úr röðum sjálfstæðismanna. Var svarið jafnan á þann veg að Framsfl. hafnaði alfarið frekari einkavæðingu. Frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þýddi að sett yrðu tvö kerfi, annað fyrir þá sem gætu greitt og vildu fá þjónustuna strax og hitt fyrir hina sem yrðu að bíða. Ég get tekið undir þessa skoðun og tel litlar forsendur fyrir því að bera saman leikreglur í rekstri almennra fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni annars vegar og hins vegar grunnheilbrigðisþjónustu sem lýtur allt öðrum lögmálum. En ég get þó ekki annað en haft áhyggjur af þróuninni í heilsugæslunni og reyndar á öðrum sviðum líka og ég velti því fyrir mér hvort einhver vilji sé fyrir því að rjúfa þá þjóðarsátt sem verið hefur um almannatryggingar hér á landi sem eina styrkustu og mikilvægustu stoð velferðarkerfisins.

Ég spyr ekki síst í ljósi þess að á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstfl. var ályktað um að flokkurinn legði áherslu á tilfærslu verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar, svo sem heilsugæslu og einstakra verkefna sjúkrahúsþjónustu, frá ríkinu yfir til einkaaðila, félagasamtaka og sveitarfélaga, og tímabært sé að einkaaðilar taki nú þegar við slysatryggingum sem eru á höndum Tryggingastofnunar.

Ég vil því í ljósi þess sem hér hefur verið sagt spyrja eftirfarandi spurninga:

Hvaða augum lítur heilbrrh. á þá staðreynd að heimilislæknar bjóði nú upp á vitjanir í heimahús án kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins og hyggst hann á einhvern hátt bregðast við því? Telur ráðherra að slík þjónusta geti á einhvern hátt ógnað því almannatryggingakerfi sem sátt hefur verið um hér á landi hingað til eða alið af sér tvískipt kerfi? Hvernig vill ráðherrann bregðast við þeim vanda sem við blasir í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem þúsundir manna eru án heimilislæknis, og hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tekið verði upp breytt launafyrirkomulag hjá heimilislæknum í því skyni að greiða úr vanda heilsugæslunnar? Hvaða augum lítur ráðherra hugmyndir Sjálfstfl. um tilfærslu verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar, svo sem heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu, frá ríki til einkaaðila og má vænta einhverrar stefnubreytingar frá ríkisstjórninni í þessum efnum?