Áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 10:51:03 (1592)

2001-11-15 10:51:03# 127. lþ. 30.94 fundur 145#B áform um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og svör hæstv. ráðherra. Ég neita því að það eina sem sé í lagi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi séu sérfræðingar eins og kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. því að heilbrigðisþjónusta á Íslandi er ein sú besta sem gerist í heiminum.

Hvar er mest einkavæðing í heilbrigðisþjónustu í heiminum? Í Bandaríkjunum. Er heilbrigðisþjónustan ódýrari þar en annars staðar? Nei, hún er dýrari. Er heilbrigðisþjónustan skilvirkari í Bandaríkjunum en annars staðar? Jú, en einungis fyrir 40% þjóðarinnar. 25--30% íbúa Bandaríkjanna fá litla sem enga heilbrigðisþjónustu og geta dáið drottni sínum í friði. Þetta er hin frjálsa samkeppni í heilbrigðisþjónustunni.

Það er nefnilega þannig með sjúkdóma að við veljum þá ekki, herra forseti. Þess vegna getum við aldrei haft frjálsa samkeppni um þá. Það er deginum ljósara.

Tökum annað dæmi. Á Kýpur búa 500 þúsund manns. Þar er kerfið tvískipt eins og sumir vilja hafa það hér, einkavætt fyrir hina ríku en ríkisrekið fyrir hina fátæku. Í einkavædda kerfinu er þjónustan fljót og góð en hið sama gildir ekki um ríkisrekna kerfið. Þar mætir þjónustan afgangi. Ef hinir fátæku leyfa sér þann munað að nýta sér hið einkavædda kerfi bíða þeir þess væntanlega bætur heilsufarslega en aldrei fjárhagslega. Viljum við skipta heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Það vil ég ekki, og það vill Framsfl. ekki, herra forseti.

Nú er launakostnaðurinn 70--80% af heilbrigðisþjónustunni. Heldur herra forseti að heilbrigðisstéttir muni lækka laun sín í einkavæddu kerfi? Ég hef ekki trú á því. Einkavæðing heilbrigðisþjónustu er því ekkert annað en pilsfaldakapítalismi vegna þess að ríkið greiðir alltaf stærstan hluta af heilbrigðiskostnaðinum.