Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:46:13 (1769)

2001-11-20 13:46:13# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að svar mitt við sölu ríkisjarða hefur sætt nokkurri gagnrýni á hinu háa Alþingi og ég verið sakaður um að leyna upplýsingum, í ljósi þess að ég vil hafa það sem sannara reynist og jarðirnar seldar eftir skýrt mörkuðum reglum hef ég ritað forsrh. bréf. Eftir stuttan inngang gríp ég niður í bréfið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með hliðsjón af framangreindu voru hjálögð svör mín við fyrirspurnum frá Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur alþingismanni um sölu ríkisjarða á undanförnum fimm árum takmörkuð við þær upplýsingar sem hægt var að afla á tilsettum tíma án verulegs tilkostnaðar.

Jafnframt var efni þeirra í ljósi framangreindra sjónarmiða bundið við þær upplýsingar sem heimilt var talið að veita með tilliti til þeirra takmarkana sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að upplýsingalögin setji aðgangi að slíkum upplýsingum, samanber úrskurði í málum A 12 1997 og nr. A 34 1997. Var þá jafnframt haft í huga að enginn eðlismunur er á aðgangi að þeim upplýsingum sem veittar eru Alþingi og afhentar almenningi á grundvelli upplýsingalaga að því leyti að öllum er heimill aðgangur að því sem lagt er fram á opnum þingfundi. Á þeim grundvelli voru því ekki veittar upplýsingar um söluverð jarðanna og kaupendur þeirra.

Eftir að svar mitt var lagt fyrir Alþingi hefur komið í ljós að hluti þeirra upplýsinga sem ég hef á framangreindum grundvelli hafnað að veita Alþingi hafa verið birtar í ríkisreikningi allt frá 1998. Þar eð engar sambærilegar takmarkanir gilda hins vegar um aðgang að upplýsingum sem þar birtust, og virðist þá fjmrn. eða ríkisbókhald leggja annan skilning í þetta heldur en landbrn., legg ég svohljóðandi spurningu fyrir hæstv. forsrh.:

Þegar til þess er litið hversu miklu það varðar fyrir farsæl samskipti ríkisstjórnar og Alþingis að stjórnvöld leggi sama skilning í það að hve miklu leyti lögbundin þagnarskylda ríki um aðgang að upplýsingum í þeirra vörslu þykir eins og mál þetta er vaxið rétt að leita álits yðar, herra forsrh., á því að hve miklu leyti lög leyfa að Alþingi verði veittar hinar umbeðnu upplýsingar miðað við framangreint.``

Guðni Ágústsson undirritar þetta.