Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:48:34 (1770)

2001-11-20 13:48:34# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í ljósi þess hversu verulega vanbúið svar hans var við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um sölu ríkisjarða, fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli vilja leita eftir því sem sannara reynist í því máli.

En ég get ekki orða bundist, herra forseti, enn og aftur að gera athugasemdir við skilning hæstv. ráðherra á upplýsingaskyldu þeirra gagnvart þinginu. Hvers vegna í ósköpunum, herra forseti, leitar hæstv. ráðherra ekki álits hjá sjálfu löggjafarþinginu, hjá nefndadeild Alþingis eða forsætisnefnd Alþingis á því hver sé skylda hans til þess að veita hinu háa Alþingi upplýsingar? Hæstv. ráðherrar eru alltaf að tala sín á milli um það hvernig þeir eigi að koma fram við hið háa Alþingi.

Herra forseti. Ég mótmæli þeim skilningi hæstv. ráðherra á því hver það sé sem eigi að segja honum hvað sannara reynist í þessum efnum. Það er Alþingi sjálft sem á að gera það og öll meðferð þessa máls, þessarar tilteknu fyrirspurnar og þess sem fram hefur komið í kjölfar hennar kristallar enn og aftur hversu mjög hið háa Alþingi er vanbúið til að takast á við framkvæmdarvaldið og það þarf að styrkja stöðu þess verulega gagnvart framkvæmdarvaldinu eigi ekki illa að fara fyrir lýðræðinu í landinu.