Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:12:02 (1779)

2001-11-20 14:12:02# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Sjúkraliðar eru fjölmenn heilbrigðisstétt sem vinnur eins og algengt er um heilbrigðisstéttir afar mikilvæg en fremur lítt sýnileg störf, bæði innan og utan sjúkrahúsa. Mikill skortur hefur verið á sjúkraliðum á síðustu árum og hefur þetta valdið verulegum erfiðleikum innan heilbrigðisþjónustunnar.

Einn helsti frumkvöðull að því að farið var að kenna þessa grein var Ragnheiður Guðmundsdóttir augnlæknir, en hún hafði kynnst henni í námi sínu erlendis. Nám sjúkraliða fer nú fram á fjölbrautastigi og er Fjölbrautaskólinn við Ármúla móðurskólinn. Námið tekur þrjú ár en sjúkraliðar sem því ljúka skila sér ekki nægilega til starfa eins og fram hefur komið í umræðunni.

Enn er það svo að veggur er á milli náms þeirra og náms í háskóla en hjúkrun var flutt á háskólastig fyrir nokkrum árum eftir margra ára baráttu hjúkrunarfræðinga. Eftir þriggja ára nám sjúkraliða vantar að mínu áliti leið til þess að bæta við sig námi, sækja sér aukin réttindi og þar með betri tekjumöguleika. Slíkir þættir þykja eftirsóknarverðir í dag í öllum greinum. Hjúkrun er ekki á háskólastigi í mörgum löndum, t.d. er hún ekki á háskólastigi í Danmörku.

Í Danmörku býður nám sjúkraliða upp á miklu fleiri möguleika. Þar í landi geta þeir með viðbótarnámi t.d. orðið ljósmæður, hjúkrunarfræðingar eða félagsráðgjafar en það hefur ekki verið hægt hér á landi. Nám sjúkraliða gefur þeim ekki forskot í hjúkrunarnámi eftir því sem ég best veit. Þannig vantar þróunarleið eða framgangsmáta og úr því þarf að bæta.

Fyrir tæpu ári var gefin út skýrsla með niðurstöðum nefndar um framhaldsnám sjúkraliða og vona ég að eitthvað rætist úr því sem þar kom fram. En óhjákvæmilega hlýtur endurskoðun á námi sjúkarliða að fela í sér endurmat á störfum og verkaskiptingu milli sjúkraliða og ófaglærðra og milli sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt lögum um sjúkraliða starfa þeir á hjúkrunarsviði undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem er yfir stofnun, deild eða einingu. Læknar, ekki síst læknar sem eru sjálfstætt starfandi hafa einnig sóst eftir því að fá sjúkraliða til starfa. Þeirra er því víða þörf í heilbrigðisþjónustunni.