Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:14:17 (1780)

2001-11-20 14:14:17# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Enn eru málefni heilbrigðisþjónustunnar og sjúkraliða til umræðu á Alþingi. Við ræddum um það síðast fyrir einum og hálfum mánuði og enn versnar ástandið. Hvað kostar þetta ástand sem ríkir í heilbrigðisþjónustunni? Hvað kostar að veita ekki viðunandi þjónustu? Það er dýrt samfélaginu og getur kostað mannslíf. Hvað kostar það samfélagið að mennta ungt fólk til sjúkraliðastarfa, ungt fólk sem nýtir ekki menntun sína til slíkra starfa heldur fer í önnur betur borguð störf? Niðurstöður í viðhorfskönnun Sjúkraliðafélagsins sýna að yngsta fólkið sem útskrifast skilar sér ekki inn í greinina. 140 eldri sjúkraliðar hafa sagt upp störfum undanfarið. Það er dýrt að greiða ekki mannsæmandi laun fyrir umönnunarstörfin.

Öldruðum yfir 85 ára mun fjölga um helming næstu 20 ár. Legurúmum mun ekki fjölga að sama skapi og þörfin fyrir umönnun í heimahúsum mun aukast verulega. Nú vantar um þúsund sjúkraliða til starfa og hjúkrunarheimilin vantar helmingi fleiri en starfa þar nú um stundir. Hvernig ætla heilbrigðisyfirvöld að bregðast við?

Hæstv. ráðherra nefnir nefndir og kynningarátak og að stuðla beri að menntun. Það dugar ekki til því að nú er verið að svelta umönnunar- og kvennastéttina, sjúkraliða frá störfum á sama tíma og sjálfsagt þykir að hækka laun karlastétta með sambærilega menntun eins og lögreglunnar og tollvarða. Þetta er nú jafnréttishugsjón ríkisstjórnarinnar. Hún er e.t.v. einhvers staðar í orði en svo sannarlega ekki á borði. Það er mjög alvarlegt fyrir heilbrigðisþjónustuna og þá sem þurfa að reiða sig á hana, sjúka og aldraða hér á landi.