Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:25:08 (1785)

2001-11-20 14:25:08# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér til að ræða um málefni sjúkraliða og þá alvarlegu stöðu sem þar er uppi. Þrátt fyrir að verkfalli eða kjaradeilu sjúkraliða sé ekki lokið þá finnst mér það þó virðingarvert og þetta er mjög alvarlegt mál. Við erum að tala um skort á starfsfólki til aðhlynningar fyrir veika, sjúklinga, alls um þúsund manns. Ef teknar eru bara þær tölur sem hjúkrunarforstjórarnir gáfu upp á sínum tíma þá er það vissulega rétt að sá skortur á sjúkraliðum bitnar fyrst og fremst á dvalar- og hjúkrunarheimilum, og staðan er ósköp einfaldlega þannig að skortur miðað við þörf er metinn upp á 76% í Reykjavík, í Reykjanesi 71%, á Vesturlandi 72%, á Norðurlandi eystra 79%, á Austurlandi 52% og 81% á Suðurlandi. En tölur vantar frá Vestfjörðum.

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að þeir sjúklingar sem þarna eru fá ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Þrátt fyrir allar heilbrigðisáætlanir þá er það bara þannig að okkur vantar faglært starfsfólk. Og okkur vantar það fyrst og fremst í stéttina af því að við höfum sýnt henni smánarlega framkomu árum saman. Það tók langan tíma að styrkja stöðu hennar innan heilbrigðiskerfisins. Síðan hefur hún verið í launa- og kjaraströggli í langan tíma.

Ég fagna því ef hæstv. ráðherra hefur tekið upp samstarf við forustusveit Sjúkraliðafélagsins um hvernig megi bæta úr. En það verður að auka möguleikana til menntunar og það verður að auka möguleika þeirra sem eru ófaglærðir í störfum í dag og vinna við aðhlynningu. Það þarf líka að bjóða upp á sjúkraliðanám í fjölbrautaskólunum úti um land. En það er ekki gert nema á nokkurra ára bili.

En ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að taka leiðbeiningu Sjúkraliðafélagsins í þessum efnum.