Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:58:59 (1806)

2001-11-20 15:58:59# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem ráðherra sagði um að hann væri að skoða það að komið yrði með meira að landi. Mér finnst það að vísu ekki nóg. Nú eru liðin líklega fimm ár frá því að lög áttu að ganga hér í gildi sem skylduðu fullvinnsluskipin til að koma með allan afla að landi. Alþingi felldi þessi lög úr gildi áður en þau tóku gildi og nú sitja menn uppi með það að þessir hlutir hafa staðnað.

Ekki þarf neina sérstaka rannsókn á því hvort verðmæti séu í þorskhausum. Menn eru búnir að rannsaka það æðinóg, svo mikið að þeir eru farnir að flytja inn þorskhausa frá öðrum löndum til að þurrka hérna og selja út. Því er ekkert vafamál að um er að ræða veruleg verðmæti sem eru fólgin í þessu sem fullvinnsluskipin hafa fleygt í sjóinn. Þau skip sem eiga ekki möguleika í dag á því að koma með þennan afla að landi þurfa auðvitað að koma sér upp búnaði til þess. Það er kannski allt öðruvísi búnaður en verið var að tala um þegar lögin, sem ég var að nefna áðan, voru sett 1992. Verið gæti að viðbótarfrystibúnaður og annað því um líkt dygði. Það er engin ástæða til að skylda menn til að koma með slorið í land eða slógið. Fyrsti áfangi gæti verið að menn kæmu með hausana og hryggina í land, en þá er hægt að selja á verulega góðu verði. Það hefur verið gert í fleiri ár. Ég skora því á ráðherrann að fylgja þessum málum vel eftir.