Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:01:53 (1808)

2001-11-20 16:01:53# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er rætt frv. til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sem snýr að því að vinna gegn brottkasti sjávarafla og því ber að fagna að hæstv. sjútvrh. komi með frv. til laga með það að markmiði að vinna gegn brottkasti sjávarafla.

Tilefni þess að ég tek þátt í umræðu um þetta frv. er af svipuðum toga og hér var rætt áðan í andsvörum, þ.e. að í frv. er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski, innyflum og hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.

Herra forseti. Það er skoðun mín að meginreglan eigi að vera sú að allur afli fiskiskipa eigi að koma að landi. Það hefur komið fram, m.a. um fiskhausa, að Íslendingar hafa þróað vinnslu fiskhausa og unnið markaði erlendis fyrir þessa vöru. Nú er svo komið að slíkt hráefni vantar til vinnslu hér á landi þannig að menn eru farnir að leita eftir því að flytja þetta hráefni inn á sama tíma og fiskiskip okkar varpa þessu fyrir borð í einhverjum mæli.

Ég vil í tilefni af frv. lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst að það eigi að vinna að því að þessi verðmæti komi öll að landi. Þarna er um að ræða bæði umhverfismál varðandi lífríkið og ekki síður verðmæti fyrir þjóðarbúið. Það hlýtur að vera meginmarkmið okkar að nýta þau verðmæti sem þarna um ræðir.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um brottkast á afla. Það er alveg ljóst í mínum huga að þarna er um að ræða brottkast og mér þykir verra ef það verður heimilað með reglugerðum eða lagaheimildum. Ég vildi bara koma því á framfæri sem minni skoðun og vonast til þess að hv. sjútvn. taki það til umfjöllunar hvort rétt sé að hafa slíkt reglugerðarákvæði í lögum eða hvort vilji er til þess ganga alla leið og hreinlega skylda menn til að koma með allt að landi.

Hæstv. ráðherra fór aðeins yfir þetta mál áðan í andsvörum og skýrði sjónarmið sitt sem ég get út af fyrir sig fallist á. Ég vildi eingöngu, hæstv. forseti, koma þeirri skoðun minni á framfæri, og ítreka hana enn og aftur, að meginreglan á að vera sú að allur afli fiskiskipa okkar eigi að koma að landi. Þarna er um að ræða mikið umhverfismál og stórkostleg verðmæti sem þjóðarbúið getur nýtt sér.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi eingöngu koma þessu á framfæri og vænti þess að hv. sjútvn. taki þetta mál sérstaklega til umræðu.