Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:14:36 (1810)

2001-11-20 16:14:36# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að brottkastsumræðan núna og myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu væru skipuleg aðför að kvótakerfinu. Myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu voru staðfesting á skoðanakönnun sem nefnd fékk Gallup til að gera. Það kom ekkert fram í þessum myndum sem ekki gat passað alveg við það sem kom fram í þeirri skoðanakönnun. Var nefndin sem hv. þm. Gunnar Birgisson var í forsvari fyrir í einhverri aðför að kvótakerfinu?

Ástæða er til að spyrja að þessu vegna þess að þar komu fram upplýsingar sem voru greinilega af sama tagi. Þar kom í ljós að verið væri að henda mjög stórum fiski í sjóinn og þessi fiskur var álíka stór og kom fram á þessum myndum. Ég spyr hv. þm., af því að hún segir að menn eigi ekki að henda fiski í sjóinn, hvað þeir eigi að gera sem eiga nægan kvóta í einni tegund og fá ekki keypt í annarri. Eiga þeir að vera í landi? Eiga þeir ekki að taka neina áhættu af því að fara á sjó og geta fengið kannski fisk sem ekki er nægilegur kvóti fyrir? Kvótamarkaðirnir hafa ekki getað uppfyllt þarfir þeirra sem hafa núna verið að róa á línu fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi, fyrir t.d. ýsu. Með því að halda þessu fram er verið að segja að það eigi bara að stöðva gjörsamlega þessar veiðar.

Hér eru á ferðinni alls konar hugmyndir og tillögur um að gefa sveigjanleika í þetta. Hv. þm. vill því ganga talsvert lengra en þeir sem um þetta eru að véla hér um slóðir. Það er ágætt að það komi fram ef hv. þm. vill ekki að gerðar verði breytingar sem auka sveigjanleika gagnvart þessum atriðum.