Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:18:00 (1812)

2001-11-20 16:18:00# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er kunnugt um að til eru ýmsar leiðir, en það hefur ekki dugað til og hv. þm. segir að mikið brottkast sé í gangi. Það liggur beint við að spyrja: Hverjir eiga að hætta að róa? Það eru býsna margir sem þyrftu að gera það. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í Gallup-könnuninni er verið að henda ekki minna en 30 þúsund tonnum í sjóinn. Það eru ekki tveir eða þrír sem kasta 30 þúsund tonnum í sjóinn. Það eru margir. (Gripið fram í.) Það getur verið býsna stór hluti flotans sem ætti að hætta samkvæmt þessu.

Ég er ekki að halda því fram að þetta sé verjanlegt, síður en svo, en mér finnst að menn eigi ekki að tala hér eins og það sé einfalt mál að ljúka þessum málum á farsælan hátt. Það verður ekki gert með lögregluaðgerðum. Það verður ekki gert nema með reglum sem gera mönnum kleift að stunda sjó án þess að hljóta refsingar fyrir það að koma með að landi þann afla sem kemur í veiðarfærin.