Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:20:48 (1814)

2001-11-20 16:20:48# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að víkja að. Í fyrsta lagi sagði að hv. þm. að fiski væri kastað þannig að hann hefði svifið vel fyrir myndavélarnar, ef ég hef tekið rétt eftir. Sjómenn eru missterkir, held ég, eins og margir Íslendingar. Sumir kasta hátt og aðrir kasta lágt þannig að ég mundi ekki draga miklar ályktanir af því, hv. þm. Ég þori t.d. að fullyrða að ég mundi kasta frekar hátt ef ég ætti að kasta fiski í sjóinn. (Gripið fram í: Þú mundir ekki gera það lengi.) Sennilega mundi ég beita meira afli eftir því sem fiskurinn væri stærri. (Gripið fram í: En á morgnana?) (Gripið fram í: Þá fer hann líka lægra.)

Síðan langar mig aðeins að segja að ég tel að brottkastið sem myndað var um daginn hafi ekki verið sett á svið. Við skulum heldur ekki gleyma því að við fengum eina filmu í viðbót sem sýndi brottkast og var sagt að hún hefði verið tekin af bát fyrir tveimur árum.

Það hefur auðvitað komið í ljós við skoðanakannanir að brottkast hefur verið talsvert mikið á undanförnum árum, sjómenn hafa beinlínis sagt að það væri mjög mikið. Það sem verra er, sjómenn tjáðu það í skoðanakönnuninni sem gerð var að þótt einhverju væri bætt við aflaheimildirnar mundu þeir sennilega halda áfram að kasta. Þetta fannst mér eiginlega alvarlegasta vísbendingin sem ég sá í þeirri skýrslu. Það segir mér að kvótakerfið okkar, því miður, hefur vanið menn á þetta af hvaða orsökum sem það er, hvort sem um kvótalítil skip eða ekki er að ræða.