Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:23:03 (1815)

2001-11-20 16:23:03# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson segir að hann mundi kasta hátt og þeim mun hærra sem fiskurinn væri stærri. Þarna kemur reginmismunur fram á okkur Guðjóni. Ég mundi alls ekki kasta þessum fiski, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson.

Kvótakerfið er skilvirk aðferð til að ná hámarksafrakstri við nýtingu fiskstofnanna við landið. Það er allra hagur að fiskveiðiauðlindin sé nytjuð með sem mestri hagkvæmni. Í því felst m.a. að sem allra verðmætastur afli sé dreginn á land með sem minnstum tilkostnaði því að þannig fæst mesti arður sem unnt er að fá af fiskveiðiauðlindinni í heild.

Með tilkomu kvótakerfisins hefur afskaplega mikil hagræðing átt sér stað og er þjóðarbúið nú að fá miklu meiri verðmæti en áður út úr þeim takmarkaða afla sem við veiðum og það með minni útgerðarkostnaði. Brottkast er veikleiki í kvótakerfinu og verið er að taka á því núna m.a. með umræddu frv.