Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 16:28:44 (1820)

2001-11-20 16:28:44# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég tala um vísvitandi falsaðar fréttir hef ég orð skipstjórans fyrir því. Ef hv. þm. hefði verið inni í salnum áðan hefði hann heyrt þegar ég útskýrði þetta þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson kom með þessar sömu eða mjög svipaðar athugasemdir. Í ræðu minni stendur: ,,Ekki finnst mér þó ólíklegt að þarna sé um skipulagða aðför að fiskveiðistjórnarkerfinu okkar að ræða.``

Ég er ekkert að setja fram þarna um vísvitandi falsaðar fréttir annað en það sem kemur fram í máli annars skipstjórans.

Varðandi hitt atriðið þá er ég að benda á að flotinn er of stór og afkastageta hans of mikil miðað við þá fiskstofna sem synda um í sjónum. Þetta er staðreynd. Og það er alveg sama hvaða kerfi við tökum upp eða hverju við umbreytum í fiskveiðistjórnarkerfinu okkar, þetta er svona og þetta verður svona og það er alveg á hreinu að þrátt fyrir að við mundum kúvenda öllu geta ekki öll skip veitt eins og þau hafa getu til.