Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:25:56 (1828)

2001-11-20 17:25:56# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. nefndi hér áðan að hann teldi að almennt talað ætti að hafa sem allra fæstar tegundir í kvóta. Ég er alveg sammála hv. þm. um þetta.

Þetta vakti mig hins vegar aðeins til umhugsunar vegna þess að í sumar gerðist það að hæstv. sjútvrh. lagði það til við ótrúlega litlar vinsældir satt að segja, því miður, að taka eina tegund út úr kvóta. Ég held ýkjulaust að í þessum sal séu núna staddir allir þeir hv. þm. sem mæltu þessu máli bót opinberlega. Auk hæstv. ráðherra var það sá sem hér stendur og hv. 4. þm. Vestf. Ég man eftir einum þingmanni Samfylkingarinnar sem tjáði sig um þetta mál. Hann greindi frá því í Svæðisútvarpi Vestfjarða að þessi ákvörðun hæstv. ráðherra væri sennilega sú vitlausasta af mörgum vitlausum ákvörðunum sem hefðu verið teknar í sjávarútvegsmálum á undanförnum árum. Ég var algjörlega ósammála þessari staðhæfingu vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að auðveldlega sé hægt að stjórna veiðum almennt talað, ég tala ekki um í einstaka tegundum ef menn vilja, með öðrum aðferðum en magnbundnum, einstaklingsbundnum, færanlegum kvótum.

Þess vegna leikur mér dálítil forvitni á að vita hver afstaða hv. þm. var til þessa máls því hv. þm. er allajafna óspar á að láta skoðanir sínar í ljósi. Mig minnir þó að einhverra hluta vegna hafi komið yfir hann mikil hæverska í sumar og hann hafi ekki tjáð sig um þetta mál.