Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:30:00 (1831)

2001-11-20 17:30:00# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók undir þetta táknrænt. Ég hef hins vegar verið með mínar eigin tillögur ásamt félögum mínum um hvernig eigi að gera þetta. Ég tel að koma eigi til móts við þá sem eru í útgerð þegar breytingin fer fram. Við höfum komist að ákveðinni niðurstöðu um að gera þetta á tilteknum tíma. Ég tel að hægt sé að gera það hraðar. Ég hef hins vegar ekki komist að þeirri niðurstöðu að við gætum tekið kvótann af öllum útgerðarmönnum á Íslandi með þeim hætti sem hæstv. ráðherra tók steinbítinn af í sumar. Það held ég að sé aðgerð sem verði erfið viðfangs. Það yrði a.m.k. að liggja fyrir ákaflega skýrt, og betur en þá var, hvaða kerfi ætti að taka við í heildina og hvernig það gæti þá virkað þannig að það setti ekki alla útgerðarmenn á Íslandi í þann vanda að þeir færu kannski sumir hverjir bara lóðbeint á hausinn og ættu enga möguleika á að bjarga sér.

Ég er bara að segja að ég vil að farið verði út úr þessu kerfi skipulega og af ábyrgð þannig að útgerðarmenn viti fyrir fram hvað sé á ferðinni og geti aðlagað sig að nýjum aðstæðum. Ég vil ekki að við gerum það eins fyrirvaralaust og snöggt og þegar steinbíturinn var tekinn út í sumar. Það var ákveðin sönnun fyrir því, að mér fannst, þ.e. þessi aðgerð ráðherrans, að við þurfum engu að kvíða með tillögur mínar, en ýmsir hv. þm. og félagar hv. 1. þm. Vestf. hafa ásakað mig um ábyrgðarleysi fyrir að leggja til að veiðiheimildir verði innkallaðar á tíu árum en ekki á augnabliki eins og steinbíturinn.