Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 17:55:06 (1834)

2001-11-20 17:55:06# 127. lþ. 32.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var einkum eitt atriði sem mig langaði að víkja að úr máli hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi er það náttúrlega þannig að aðstæður á miðunum við landið eru breytilegar og taka breytingum á milli ára eða áratuga. Þær kalla þá eðlilega fram ákveðinn vanda ef við erum með of stíft útfærðar reglur sem ekki eru tengdar þessum innbyggða breytileika. Þá lenda menn í vandræðum.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um að það yrði þá að vera hægt að takmarka veiðileyfin ef ætti að fækka tegundum í kvótakerfi, þá er ég ekki sammála honum um það. Ég tel að ef mönnum tekst að útfæra stjórnkerfið þannig að það séu tiltölulega fáar tegundir, svokallaðar burðartegundir, í hverri veiðigrein sem eru í kvóta, tvær eða þrjár eftir atvikum, þá þurfi ekki að gera aðra kröfu en þá að bátum eða skipum sem stunda veiðar með tilteknum veiðarfærum á tilteknum svæðum sé skylt að hafa kvóta í þessum tveimur eða þremur tegundum. Ég sé ekki að þurfi að hafa önnur skilyrði, í þeim tegundum sem eru burðartegundir. Þar af leiðandi fæ ég ekki skilið þá röksemd að nauðsynlegt sé að fækka veiðileyfunum, vegna þess að veiðarnar yrðu ekki heimilar nema því aðeins að bátarnir hafi kvóta í burðartegundum.