Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 13:59:17 (1871)

2001-11-21 13:59:17# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil meina að þessi skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu sé afar vönduð og merkileg í sjálfu sér, þó að hún taki ekki á hverju smáatriði á hverjum stað fyrir sig á landinu, enda var það ekki tilgangur skýrslunnar.

Ég held að menningartengd ferðaþjónusta sé okkur afar mikilvæg og það hefur sýnt sig að gríðarlega margt skemmtilegt hefur verið gert hér á landi, þar sem fólk nýtir sér þau tækifæri sem því eru nærtækust, söguna, þessa menningarlegu arfleifð sem við eigum. Inn í þetta kemur t.d. verndun gamalla húsa, tónlist, allt sem við getum sagt að tilheyri sögu okkar og ég vil þá sérstaklega minnast á hvað Rangæingar hafa gert varðandi Njálu og Njálusafnið. Eðlilegast væri að taka Sturlungu næst og gera henni hátt undir höfði.