Skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:06:36 (1876)

2001-11-21 14:06:36# 127. lþ. 33.4 fundur 205. mál: #A skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Þegar ég tók við sem samgrh. skipaði ég þrjár nefndir til að vinna sérstaklega að málefnum ferðaþjónustunnar í þeim tilgangi að ná þeim árangri sem hv. fyrirspyrjandi var að tala um að við þyrftum að ná, að fjölga hér erlendum ferðamönnum.

Í fyrsta lagi skipaði ég nefnd sem fjallaði um rekstrarstöðu greinarinnar. Hún skilaði tillögum og búið er að koma þeim langflestum í framkvæmd sem hefur bætt stöðu fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu.

Í annan stað skipaði ég nefnd um heilsutengda ferðaþjónustu. Hún var undir forustu markaðsstjóra Bláa lónsins og skilaði mjög góðum tillögum. Um þær verður fjallað sérstaklega á ráðstefnu 6. des. nk. sem ég vænti að hv. fyrirspyrjandi og fleiri góðir hv. þingmenn geti mætt á og fylgst með. Þar eru fjölmargar tillögur sem fólk um allt land, á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og í öllum landshlutum, er að huga að.

Í þriðja lagi var síðan nefndin sem ég skipaði undir forustu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs, formanns Ferðamálaráðs. Hún hefur nú skilað tillögum sínum og afskaplega vel unninni og merkilegri skýrslu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Það er rangt og ekki að mínu mati í þágu greinarinnar, hvað þá Suðurnesja eða Reykjaneskjördæmis, að láta að því liggja að verið sé að vinna gegn þessum landshluta. Öðru nær. Hvar eru fjárveitingar, hvar eru framlög til menningarstarfsemi, ef þau eru ekki hér á höfuðborgarsvæðinu? Öll safnastarfsemin og menningarstarfsemin, tónleikar og leikhús og allt það sem hér er byggt upp (Gripið fram í.) þannig að það er afskaplega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að það á ekki að etja landshlutum saman. Það er unnið mjög að því að byggja upp íslenska ferðaþjónustu og það er vilji minn að það sé ekki síður gert á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum. Til þess var þessi skýrsla skrifuð.